Getum unnið þá heima

Gylfi Þór Sigurðsson með boltann en Ivan Perisic sækir að …
Gylfi Þór Sigurðsson með boltann en Ivan Perisic sækir að honum, á Maksimir-vellinum í kvöld. AFP

„Þetta var svekkjandi leikur,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson sem lék í öðru hlutverki en hann hefur gert síðustu misseri hjá íslenska landsliðinu, í 2:0-tapinu gegn Króötum í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld.

Gylfi var settur framar á völlinn en Birkir Bjarnason lék í hans stað með Aroni Einari Gunnarssyni á miðjunni. Hvernig fannst Gylfa að vera í þessu hlutverki?

„Þetta var allt í lagi. Auðvitað var lítið um spil og meira um langar sendingar þar sem maður þurfti að reyna að vinna „seinni boltann“ eftir að Jón Daði vann skallaboltann. Þetta hefði kannski verið öðruvísi á öðrum og betri velli, en það var auðvitað eins fyrir bæði lið. Maður fékk kannski fleiri hálffæri en maður er vanur, og þetta var ekkert skelfilegur leikur hjá okkur þó að hann hafi farið 2:0. Það vantaði herslumuninn.“

Króatía var 1:0 yfir fram á 90. mínútu þegar heimamenn bættu við seinna marki sínu og gerðu út um leikinn.

„Við byrjuðum ágætlega og sköpuðum nokkur hálffæri, og vorum nokkuð góðir varnarlega. Þeir náðu þessu skoti rétt utan teigs og það var svekkjandi að fá það mark í andlitið á sér. Gæðin voru kannski lítil, vegna þess hvernig aðstæður voru, en mér fannst við alltaf vera inni í leiknum þó að við höfum ekki skapað neitt mikið. Mér finnst að við getum unnið þá heima,“ sagði Gylfi.

Ísland er með sjö stig eftir fjóra leiki í riðlinum en Króatar eru efstir með 10 stig.

„Möguleikarnir okkar eru alveg fínir. Það eru fjögur mjög sterk lið í riðlinum og allir að taka stig af öllum. En lið Króata er með 3-4 leikmenn á miðjunni sem eru rosalega tæknilega góðir, þó að þeirra hæfileikar hafi kannski ekki sést vegna aðstæðna í þessum leik. Þeir eru mikið betri en þeir sýndu í dag, en fyrir utan miðjuna og framherjann þá er þetta jú, sterkt lið, en okkur finnst við eiga fullt erindi í að vinna þá, sérstaklega á heimavell,“ sagði Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina