Þurfum að vera í andlitinu á þeim allan tímann

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði landsliðsins. mbl.is/Golli

„Ég held að við séum á góðum stað þó að það vanti einhverja,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fyrir leikinn við Króatíu í Zagreb kl. 17 í dag í undankeppni HM.

Ísland er án fjölda leikmanna vegna meiðsla, en Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Sigþórsson, Emil Hallfreðsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru á meðal þeirra sem eru meiddir.

„Þetta er engin óskastaða, en við sýndum það til dæmis í síðasta leik hvað við erum farnir að ráða við. Birkir Bjarna kom þá inn á miðjuna og Theódór Elmar út á kant, og þeir leystu þessar stöður eins og þeir hefðu aldrei gert neitt annað áður,“ sagði Aron.

„Við höfum verið í þessu það lengi saman að hver og einn leikmaður í þessum hópi veit nákvæmlega til hvers er ætlast af honum, og það er að leggja sig 100% fram með þennan vilja, aga og grimmd sem þjálfarinn biður um. Þá er voðinn vís fyrir okkar andstæðinga. Ég tel að við séum komnir á þann stað að við séum heppnir með breiddina í hópnum, og þegar menn koma inn er mikill vilji í þeim til að halda sæti sínu í liðinu. Þetta er bara jákvætt. Auðvitað erum við að mæta Króötum á útivelli og gerum okkur grein fyrir því hvað það er erfitt, en markmiðið er að koma hingað og taka eitthvað með heim,“ sagði Aron.

Aðspurður hvort ekki vantaði meiri markaskorara í fremstu víglínu, í fjarveru Alfreðs og Kolbeins, svaraði fyrirliðinn:

„Við sáum það samt að Alfreð kom inn eftir langa bekkjarsetu hjá landsliðinu og skoraði þrjú mörk í þremur leikjum. Af hverju kemur þá ekki einhver annar inn af bekknum og gerir það sama? Við höfum gæðin og það er bara spurning hvort menn „stíga upp“, og ég er viss um að menn geri það og nái í þau mörk sem til þarf.“

Aron kemur til með að þurfa að verjast mönnum eins og Ivan Rakitic og Luka Modric, tveimur af bestu miðjumönnum heims:

„Þetta er ein besta miðja sem maður hefur séð í landsliði og við sýnum þeim þá virðingu sem þeir verðskulda, en við erum ekki að fara að gefa þeim neitt. Það er klárt mál. Við þurfum bara að vera í andlitinu á þeim allan leikinn, hlaupa yfir þá, og þá fara þeir kannski að verða pirraðir og við getum nýtt okkur það. En þetta verður klárlega mjög erfiður leikur. Við þurfum bara að vera á tánum og verjast því sem að höndum ber.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert