Ólína aftur í KR

Hólmfríður Magnúsdóttir og Ólína Viðarsdóttir leika saman næsta sumar.
Hólmfríður Magnúsdóttir og Ólína Viðarsdóttir leika saman næsta sumar. Eggert Jóhannesson

Enn berast fréttir af kvennaliði KR í knattspyrnu en Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir hefur ákveðið að taka upp skóna og leika með liðinu á komandi leiktíð. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Þórunn Helga Jónsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir koma allar til með að leika með KR næstu tvö tímabil en þær hafa leikið erlendis síðustu ár.

Ólína lék tvö tímabil með KR árið 2007 og 2008 áður en hún hélt út í atvinnumennsku og lék meðal annars í Svíþjóð og á Englandi. Hún kom heim og lék með Val og nú síðast Fylki en var ekki með í sumar.

Hún hefur ákveðið að taka fram skóna og leika með KR næsta sumar en Edda Garðarsdóttir, þjálfari liðsins, er sambýliskona hennar.

Ólína á að baki 70 landsleiki og 2 mörk fyrir íslenska A-landsliðið en hún ákvað að hætta með landsliðinu fyrir tveimur árum.

mbl.is