Ágreiningur á Akureyri í kjölfar fjárúthlutunar

Leikmenn Þórs/KA fagna marki.
Leikmenn Þórs/KA fagna marki. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ágreiningur virðist vera á milli forsvarsmanna Þórs/KA annars vegar og KA hins vegar um ráðstöfun á fjármagni.

Um er að ræða rétt rúmlega tvær milljónir króna sem Þór/KA telur að KA eigi að láta renna í rekstur liðsins sem keppir í meistaraflokki kvenna í knattspyrnu fyrir hönd Akureyrarfélaganna.

Þegar Knattspyrnusamband Íslands úthlutaði fjármunum til aðildarfélaga sinna, sem til voru komnir vegna árangurs Íslands á EM í Frakklandi, fékk KA rúmlega 11 milljónir og Þór rúmlega 9 milljónir. Í tilkynningu frá KSÍ vegna úthlutunarinnar kom fram að „Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum sl. 3 ár, 2014, 2015 og 2016 eða yfir það tímabil sem Evrópumótið í knattspyrnu náði yfir.“

Nói Björnsson, einn þeirra sem starfa í meistaraflokksráði Þórs/KA, sendi fyrr í mánuðinum bréf til stjórnar knattspyrnudeildar KA. Ýmsir aðrir fengu afrit af bréfinu, þar á meðal einstaklingar í stjórnum beggja félaga, í stjórnum knattspyrnudeilda félaganna, kvennaráðs Þórs/KA og starfsmanna KSÍ. Morgunblaðið hefur afrit af bréfinu undir höndum.

Í bréfinu segir Nói að í útreikningum KSÍ komi fram að fjórar milljónir séu tilkomnar vegna meistaraflokks Þórs/KA og hafi tvær milljónir farið til hvors félags um sig; 1,5 milljónir vegna árangurs Þórs/KA síðustu þrjú árin en einnig 500 þúsund í bætur vegna fækkunar áhorfenda á heimaleikjum Þórs/KA meðan á EM stóð. Vísar hann til fundar með framkvæmdastjóra KSÍ og stjórnarmanni í KSÍ varðandi útreikningana.

Óánægjan kemur glögglega fram

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru margir sem starfa fyrir Þór/KA ósáttir við stöðu mála. Óánægja Nóa kemur skýrt fram í bréfinu, en þar segir meðal annars:

„Um eða upp úr aldamótunum síðustu afsalaði KA sér öllum afskiptum af knattspyrnu kvk í mfl og 2 fl. Er eitthvað eðlilegt við það að KA taki þessa peningaupphæð úr starfi ÞórKA og segjast ætla að nota til uppbyggingar á KA svæðinu? Það er alveg ljóst að við sem rekum knattspyrnulið ÞórKA höfum engan áhuga á að leggja okkar fjármuni í uppbyggingu á KA svæðinu. Ég segi okkar fjármuni/ÞórKA, peningaupphæðin er reiknuð út frá árangri mfl ÞórKA síðustu þrjú árin. Ég ítreka það síðustu þrjú árin eru viðmiðið og kemur engum öðrum við en mfl ÞórKA,“ og Nói hnýtir því við að „ef ekki hefði verið fyrir ÞórKA þá hefðu félögin á Akureyri fengið um 4 milljónum minna úthlutað en raunin varð.“

Sjá alla fréttaskýringuna um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert