Vill ekki þjálfa lengur hjá KA – „Særði mig mikið“

Sandra María Jessen á að baki 17 landsleiki fyrir Ísland.
Sandra María Jessen á að baki 17 landsleiki fyrir Ísland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er fyrst og fremst ótrúlega sár,“ sagði Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Þórs/KA, í samtali við mbl.is í kvöld um yfirlýsingu KA um að samningur um samstarf félaganna í kvennaflokki yrði ekki endurnýjaður.

Sjá frétt mbl.is: KA slít­ur sam­starfi við Þór

Þór og KA hafa teflt fram sameiginlegu liði í meistaraflokki og 2. flokki kvenna í knattspyrnu og handknattleik. Sjálf er Sandra María skráð í Þór, en er að þjálfa yngri flokka KA í knattspyrnu. Hún segir hins vegar líklegt að hún hætti því núna.

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir ungar stelpur að sjá að það sé annað lið á Akureyri og að liðin muni hvort sem er spila saman þegar komið er upp í 2. flokk og meistaraflokk. Þess vegna hefur mér fundist jákvætt þegar stelpur í Þór/KA geta þjálfað fyrir bæði félög. Núna eftir að þetta gerðist þá langar mig ekki lengur að þjálfa fyrir KA,“ sagði Sandra og hélt áfram:

„Það er ekki vegna þess að uppbyggingin sé ekki góð eða umgjörðin léleg, heldur vegna þess að þetta særði mig rosalega mikið. Eins og staðan er núna þá er líklegra en ekki að ég muni hætta þjálfun,“ sagði Sandra.

Sjá frétt mbl.is: Undrast vinnubrögð KA: „Kom eins og sleggja“

Hún vissi ekki hvort hún færi aftur að þjálfa hjá Þór eða hvert framhaldið yrði.

„KA er með frábært unglingastarf og það gengur vel og allt það, enda hefur yngri flokka ráð KA ekki gert neitt slæmt. En þar sem þetta er allt gert undir merkjum félagsins KA þá langar mig ekki að vera partur af því mikið lengur.“

Sandra María Jessen, lengst til vinstri, fagnar með Þór/KA í …
Sandra María Jessen, lengst til vinstri, fagnar með Þór/KA í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hrædd um að stelpur að norðan leiti frekar suður

Hvað framtíð kvennaknattspyrnunnar á Akureyri varðar þá er Sandra hrædd um að þetta muni hafa mikil áhrif og jafnvel hvetja stelpur til þess að fara suður.

„Við erum margar með mikinn metnað og ef liðin eru að fara að missa sinn sameiginlega styrkleika þá gætu margar hverjar viljað fara suður í önnur lið. Það er mjög slæm þróun, enda höfum við virkað mjög vel sem eitt lið undanfarin ár og endað í efstu fjórum sætunum síðustu níu ár. Okkur þykir þetta rosalega erfitt,“ sagði Sandra.

Hún segir líka sorglegt hversu litlar upplýsingar hafa verið veittar af hálfu félaganna.

„Að við þurfum að lesa um þetta á netinu og vita jafnvel minna um þetta mál en aðrir. Ég sem og flestar í liðinu erum bara í hálfgerðu sjokki. Það hefur ekki ein manneskja komið og rætt við okkur. Það vantar upplýsingaflæði til okkar sem málið snertir mest. Þetta hefur mikil áhrif á okkur og ég á eiginlega ekki orð til þess að lýsa því nema bara að þetta er skelfilegt,“ sagði Sandra María Jessen.

Þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­raun­ir mbl.is hef­ur hvorki náðst í formann KA né formann knatt­spyrnu­deild­ar KA í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert