„Ekki viss um að ég verði KA stelpa áfram“

Karen Nóadóttir í leik með Þór/KA.
Karen Nóadóttir í leik með Þór/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Vonsvikin, svo ofboðslega vonsvikin.“ Svona hefjast skrif Karenar Nóadóttur, fyrirliða Þórs/KA í knattspyrnu, þar sem hún tjáir sig um yf­ir­lýs­ingu KA að samn­ing­ur um sam­starf fé­lag­anna í kvenna­flokki yrði ekki end­ur­nýjaður

Sjálf er Karen uppalin í KA, en hún skrifar langan pistil á Facebook-síðu sinni þar sem hún skilur ekki ákvörðun uppeldisfélags síns um að vilja ekki halda samstarfinu áfram.

„Mér þykir alveg afskaplega sárt að sjá að uppeldisfélagið mitt taki svona vanhugsaða ákvörðun eins og að slíta samstarfi milli félaganna. Hér er ekki hagur leikmanna hafður að leiðarljósi heldur eitthvað annað, eitthvað sem er svo innilega ekki eins mikilvægt,“ skrifar Karen.

Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár.
Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sorglegt að sjá á eftir allri þessari vinnu

„Á þessum árum sem félögin hafa starfað saman höfum við fengið efnilegustu, bestu og metnaðarfyllstu stelpurnar úr báðum liðum og náð að byggja upp gríðarlega sterkt lið, bæði í meistaraflokki og 2.flokki sem vinnur titla og stendur í öðrum liðum. Að sjá á eftir þeirri miklu og óeigingjörnu vinnu sem lögð hefur verið í félagið undanfarin ár er sorglegt,” skrifar Karen

Hún óttast framtíð kvennaknattspyrnunnar á Akureyri, að tvö lið þurfi að berjast um brauðmolana.

„Það er nógu erfitt fyrir sameiginlegt lið að þurfa að berjast og slást fyrir því að geta stundað íþróttina sómasamlega, grípa hvert einasta fjáröflunarverkefni sem býðst hér á Eyrinni, selja pappír og annað hægri-vinstri, þrífa hér og þar, betla styrki og svona mætti lengi telja – hvað þá ef félögin fara núna að keppast um hvort nær verkefninu á undan hinu! Ég er ekki viss um að ég verði KAstelpa áfram eftir þetta,” skrifar Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA, meðal annars í pistlinum, sem sjá má neðst í fréttinni.

Sjá fyrri fréttir mbl.is:

KA slít­ur sam­starfi við Þór

Undr­ast vinnu­brögð KA: „Kom eins og sleggja“

Vill ekki þjálfa lengur hjá KA - „Særði mig mikið“

Erfið ákvörðun fyrir alla

„Vonsvikin, svo ofboðslega vonsvikin.

KA er mitt uppeldisfélag. Jafnvel þó að pabbi minn sé grjótharður Þórsari. Ég mætti á mína fyrstu æfingu þegar ég var 8 ára gömul. Það tók ekki langan tíma að eignast fullt af vinkonum þar og nokkuð auðvelt var svo að plata vinkonuhópinn minn til að byrja að æfa líka. Það var ofboðslega gaman og urðum við feiknarsterkt lið en alltaf var okkar helsti andstæðingur Þór. Það kom ekkert endilega frá okkur stelpunum sjálfum, andrúmsloftið var bara svoleiðis, því var ó/meðvitað troðið í hausinn á okkur. Ég var KAstelpa.

Ef við spólum fram í tímann, ég var komin upp í 3.flokk og farin að spila 11 manna bolta. Allt í einu náðum við ekki í lið, oft var hægt að telja hausana á æfingum á annarri hendi. Vinkonurnar höfðu margar hverjar misst áhugann, flutt í burtu, sett meiri kraft í aðra íþrótt eða gengnar upp í sameiginlegt lið Þór/KA/KS. Að lokum stóðum við, sem eftir vorum, frammi fyrir því að þurfa að skipta yfir í Þór eða hreinlega hætta. Margar völdu seinni kostinn, við fórum tvær yfir Þór og KA tefldi ekki fram 3.flokks liði þetta árið. Ég var samt KAstelpa.

Það var erfitt að fara yfir ána og ætla allt í einu að vera samherji erkifjendanna, spila í búning sem hafði alltaf verið álitinn óþolandi. En eftir nokkrar æfingar var það orðinn sjálfsagður hlutur og eina sem komst fyrir í hausnum var að fá að spila fótbolta, þá gleymdist hitt. Það tók heldur ekki langan tíma að eignast góðar vinkonur hinu megin við ána. Ég var þó alltaf KAstelpa.
Á þessum árum skiptust félögin á að hafa fjölmenna og góða árganga. Ég veit það fyrir víst að svipað hafði alveg verið upp á teningnum hjá Þór og við í KA vorum að lenda í. Eitt árið voru fáar stelpur í Þór en fjölmargar í KA, árið eftir snérist það svo kannski við. Félögin voru oft bæði í veseni með fjöldann. Það er þessi aldur, unglingsárin, þau geta verið strembin og afar algengt er að það kvarnist úr hópum á þessum tíma. Þetta er svona enn þann dag í dag, ég veit það frá fyrstu hendi – ég er og hef verið að þjálfa yngri flokka hjá báðum liðum síðustu 6-7 árin. Vel má vera að yngri flokkarnir séu sumir hverjir fjölmennir akkúrat núna en er eitthvað garanterað að þeir verði það eftir 2, 4, 6 ár?

Veturinn 2005, þegar ég var 15/16 ára byrjaði ég að æfa með sameiginlegu liði Þór/KA/KS. Liðið hafði árin áður svo gott sem tapað öllum leikjum og það var slembilukka ef það slapp við aðeins fjögur mörk á sig. Allir voru komnir með nóg og ákveðið var að setja alvöru kraft í uppbyggingu á liðinu og umgjörð þess og voru þar fremstir í flokki foreldrar okkar stelpnanna, sennilega óeigingjörnustu foreldrar sem til eru. Ég var þarna áfram KAstelpa.
Á síðustu 11 árum hefur ÞórKA farið úr því að vera lið sem aðrir hlökkuðu til að spila við til að geta bætt markahlutfallið sitt, yfir í að vera lið sem hin liðin þola ekki að spila gegn – hræðast jafnvel – því þau vita að ÞórKA er hörku helvítis lið sem gefur ekki tommu eftir.
Ég er ÞórKA stelpa í dag og mér þykir alveg afskaplega sárt að sjá að uppeldisfélagið mitt taki svona vanhugsaða ákvörðun eins og að slíta samstarfi milli félaganna. Hér er ekki hagur leikmanna hafður að leiðarljósi heldur eitthvað annað, eitthvað sem er svo innilega ekki eins mikilvægt.

Á þessum árum sem félögin hafa starfað saman höfum við fengið efnilegustu, bestu og metnaðarfyllstu stelpurnar úr báðum liðum og náð að byggja upp gríðarlega sterkt lið, bæði í meistaraflokki og 2.flokki sem vinnur titla og stendur í öðrum liðum. Að sjá á eftir þeirri miklu og óeigingjörnu vinnu sem lögð hefur verið í félagið undanfarin ár er sorglegt.

Ég skil ekki þessa ákvörðun, ég skil ekki hvaðan mannskapur á að fást til þess að ná að halda úti þessum tveimur liðum, peningurinn í kvennaboltanum er ekki flæðandi um allt eða uppúr öllum vösum einstaklinga sem stutt geta við liðin. Það er engin forsenda fyrir því að halda úti sitthvoru liðinu. Það er nógu erfitt fyrir sameiginlegt lið að þurfa að berjast og slást fyrir því að geta stundað íþróttina sómasamlega, grípa hvert einasta fjáröflunarverkefni sem býðst hér á Eyrinni, selja pappír og annað hægri-vinstri, þrífa hér og þar, betla styrki og svona mætti lengi telja – hvað þá ef félögin fara núna að keppast um hvort nær verkefninu á undan hinu! Ég er ekki viss um að ég verði KAstelpa áfram eftir þetta.

Ég viðurkenni alveg að ég er hrædd um framtíð kvennafótboltans á Akureyri, en á sama tíma ég veit það líka að í ÞórKAliðinu búa svo sterkir og flottir karakterar sem taka svona mótlæti bara á kassann og halda ótrauðir áfram og rífa hina með sér.

Áfram frábærar fótboltastelpur!“

mbl.is