Erfið ákvörðun fyrir alla

Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár.
Þór/KA hefur verið í hópi bestu liða Íslandsmótsins síðustu ár. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„KA er bara það stór og fjölmennur klúbbur, að við teljum okkur vera með burði til þess að vera með lið í kvennaflokki,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, formaður knattspyrnudeildar KA, í samtali við mbl.is.

KA-menn sendu frá sér tilkynningu í gær þess efnis að ákveðið hefði verið að endurnýja ekki samning við Þór um að senda sameiginleg lið til keppni í meistaraflokki og 2. flokki kvenna í fótbolta og handbolta. Samstarfið var tekið upp árið 2001 en síðasti samningur rann út síðastliðið haust.

Sjá einnig:
KA slítur samstarfi við Þór
Undrast vinnubrögð KA
Særði mig mikið

„Það sem rekur okkur út í þetta er að í langan tíma hefur sú umræða verið innan KA, og meðal foreldra yngri iðkenda, að við teflum fram KA-liði. Það hefur orðið sprenging í iðkendafjölda hjá stelpunum okkar. Íþróttir eru fyrir alla, hvort sem er í afreksflokki eða ekki, og það hefur verið erfitt fyrir stelpurnar okkar að fara upp úr þriðja flokknum. Þar hefur verið mikið brottfall,“ segir Eiríkur.

Forsvarsmenn KA sjá fyrir sér að senda handboltalið KA til keppni næsta haust, og knattspyrnulið KA í 2. deild sumarið 2018, en að Þór/KA spili sína síðustu leiktíð sem sameinað lið í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í sumar.

Símtal áður en yfirlýsingin var gefin út

Árni Óðinsson, formaður Þórs, gagnrýndi vinnubrögð KA harðlega á mbl.is í gærkvöld og sagði ákvörðunina um að endurnýja ekki samstarfssamninginn hafa komið „eins og sleggju“.

„Ég veit ekki annað en að formaður KA hafi átt símtal við formann Þórs [áður en yfirlýsingin var gefin út]. Samningnum var sagt upp í september og þetta ætti ekki að koma stórkostlega á óvart. Ástæðan fyrir því að við þurftum að tilkynna þetta núna er að 20. janúar þarf að tilkynna um þátttöku á næsta tímabili til KSÍ,“ segir Eiríkur.

Því er ljóst að fundað verður áfram vegna málsins á Akureyri í dag og ekki útilokað að hætt verði við að senda lið til leiks undir nafni Þórs/KA í sumar. Hvort sem það verður strax í sumar eða á næsta ári eru KA-menn hins vegar ákveðnir í að tefla fram KA-liði í meistaraflokki kvenna:

Styðjum við óbreytt ástand í sumar en ákvörðunin er Þórs

„KA gerir sér grein fyrir því að þetta er erfið ákvörðun fyrir alla; félögin bæði, stelpurnar og síðast en ekki síst þá aðila sem sjá um að reka Þór/KA. Þau hafa gert skuldbindingar fyrir sumarið, samninga við fullt af leikmönnum og svona, og þetta vitum við. Þess vegna vill KA leggja til fjáraflanir eins og félagið hefur gert síðustu ár. Við erum tilbúin að styðja við óbreytt ástand, en það verður að vera ákvörðun Þórs,“ segir Eiríkur, sem gerir sér grein fyrir því að það mun taka tíma fyrir KA að vinna sig upp úr 2. deild og á þann stall sem Þór/KA er á í dag, sem eitt besta lið landsins um árabil og fyrrverandi Íslandsmeistari.

Sandra María Jessen hefur lýst yfir gríðarlegum vonbrigðum með ákvörðun …
Sandra María Jessen hefur lýst yfir gríðarlegum vonbrigðum með ákvörðun KA-manna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er auðvitað þannig að stelpurnar í liðinu, sem koma úr KA, ráða sínum málum sjálfar. Sem betur fer er unglingastarf KA að skila afbragðsgóðum stelpum upp í meistaraflokk. Ég skil þær rosalega vel sem eru komnar á þennan stall, sumar hverjar í landslið, ef þær taka þá ákvörðun að spila með liði Þórs/KA eða Þórs. Að sama skapi opnum við þá á það til að byrja með að þeir leikmenn sem ekki komast í það lið geti tekið slaginn með okkur. Unglingastarf KA er það gott að eftir nokkur ár mun liðið svo geta keppt við þetta góða afrekslið,“ segir Eiríkur.

KSÍ gerði ekki athugasemd við okkar ákvörðun

Ágreiningur hefur verið á milli KA og Þórs vegna úthlutunar frá KSÍ til félaganna, vegna árangurs íslenska karlalandsliðsins á EM síðasta sumar. KSÍ gaf sínum aðildarfélögum styrk og byggðist upphæðin á árangri meistaraflokksliða félaganna síðustu þrjú ár, bæði í karla- og kvennaflokki. Um tvær milljónir munu hafa farið til hvors félags, Þórs og KA, vegna árangurs Þórs/KA og töldu forsvarsmenn Þórs/KA að sú upphæð ætti að fara í rekstur liðsins.

„Ég hef átt fund með KSÍ út af þessu máli, fór yfir það hvað KA hygðist gera við peninginn, og KSÍ gerði ekki athugasemd við það. KSÍ úthlutaði peningnum til félaganna án nokkurra fyrirmæla annarra en þeirra að félögin ættu að nota þá til knattspyrnulegra mála,“ segir Eiríkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert