„Þurfti að klípa mig tvisvar til að ná áttum“

Tryggvi Hrafn Haraldsson í leik KR og ÍA í sumar.
Tryggvi Hrafn Haraldsson í leik KR og ÍA í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég átti erfitt með að trúa þessu,“ sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson í samtali við mbl.is, en þessi tvítugi Skagamaður hefur verið valinn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Mexíkó í vináttuleik í Las Vegas í næstu viku.

Sjá frétt mbl.is: Sjö nýliðar í íslenska landsliðshópnum

„Það verður að segjast að þetta hafi komið skemmtilega á óvart. Heimir hringdi í mig bara í morgun, svo það er ekki lengra síðan en það. Ég þurfti að klípa mig tvisvar til þess að ná áttum,“ sagði Tryggvi, en hann á ekki langt að sækja landsliðsreynsluna.

Foreldrar hans eiga bæði landsleiki að baki. Faðir hans Haraldur Ingólfsson spilaði á sínum tíma 20 landsleiki fyrir Íslands hönd og Jónína Víglundsdóttir spilaði 11 landsleiki, en Tryggvi segir að landsliðskallið hafi komið heimilisfólki skemmtilega á óvart.

Sérstaka athygli vekur að Tryggvi á ekki baki neinn leik með yngri landsliðum Íslands.

„Markmiðið núna hefur fyrst og fremst verið að komast í U21 árs landsliðið, svo þetta er mjög skemmtilegt. Mér líst virkilega vel á þetta, þetta verður mikil upplifun og gaman að fá að taka þátt í þessu. Það væri gaman að fá einhverjar mínútur,“ sagði Tryggvi Hrafn Haraldsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert