Margrét og Dagný spila í mjög breyttu byrjunarliði

Freyr Alexandersson
Freyr Alexandersson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir afar sterku liði Japan á morgun í öðrum leik liðsins í Algarve-bikarnum sem fram fer í Portúgal.

Japan er sjöunda sæti á styrkleikalista FIFA og því má búast við afar erfiðum leik hjá íslenska liðinu en Ísland gerði í gær 1:1 jafntefli við Noreg í fyrsta leik liðsins í mótinu. Japan tapaði hinsvegar frekar óvænt gegn Spánverjum, 1:2.

„Við megum búast við skemmtilegum og erfiðum leik. Þetta er krefjandi verkefni þar sem þær spila öðruvísi fótbolta heldur en spilaður er í Evrópu. Þær eru allar tæknilega mjög góðar og með rosalega góða fyrstu snertingu. Þær eru með gott þol og kraftmiklar,“ sagði Freyr en hann sem segir þann fljótandi fótbolta sem japanska liðið spilar muni gera leikinn á morgun öðruvísi. 

„Það verður mikil stöðubarátta en við megum búast við kraftmiklum leik frá íslenska liðinu. Við þurfum að vera klók að meta hvar við getum nýtt krafta okkar. Við erum örlítið þreytt eftir leikinn í gær,” sagði Freyr er mbl.is sló á þráðinn til hans í dag.

Dóra María Lárusdóttir verður ekki með í leiknum á morgun vegna þeirra meiðsla sem hún varð fyrir í gær og óljóst er um hvort meiðsli hennar eru alvarleg. Það kemur væntanlega í ljós á morgun.

Dagný Brynjarsdóttir mun hins vegar koma við sögu í leiknum gegn Japan sem og Margrét Lára Viðarsdóttir en þær tóku hvorugar þátt í leiknum í gær. Dagný hefur glímt við meiðsli í baki síðustu vikur. Freyr er þó ekki búinn að ákveða byrjunarlið Íslands í leiknum á morgun. 

Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir koma við sögu á …
Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir koma við sögu á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var búinn að ákveða það en get ekki sagt það vegna meiðslanna í hópnum. Við þurfum að bíða þangað til eftir meðferðir dagsins. Við vitum það í rauninni ekki fyrr en á morgun,” sagði Freyr, alveg heiðarlegur með það, en segir þó að búast megi við mjög breyttu liði.

„Ég get sagt þér að ég geri margar breytingar. Ég geri sjö til átta breytingar á liðinu,” sagði Freyr sem sagði þessa gjörbyltingu á byrjunarliðinu fyrirfram ákveðna vegna þess hversu þétt er spilað á mótinu en þriðji leikur íslenska liðsins fer fram á mánudag.

„Það er svo stutt á milli leikja. Við þurfum að gera það (breyta liðinu) til þess að vernda okkur fyrir vöðvatognunum. Svo er líka bara gott að nota hópinn og skoða sem flesta leikmenn,” sagði Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert