Birkir úr leik í sex til átta vikur

Birkir Bjarnason verður ekki með gegn Kósóvó.
Birkir Bjarnason verður ekki með gegn Kósóvó. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eftir myndatöku í dag er endanlega staðfest að Birkir Bjarnason leikur ekki með íslenska landsliðinu í knattspyrnu gegn Kósóvó í undankeppni heimsmeistaramótsins 24. mars og hann gæti jafnvel misst af öllum leikjum sem Aston Villa á eftir á þessu tímabili.

Birkir staðfesti þetta við mbl.is rétt í þessu eftir að hann fékk niðurstöðurnar úr myndatökum í dag og sagði að hann yrði frá í að minnsta kosti sex til átta vikur. Liðband í hné skaddaðist í leik Aston Villa og Rotherham á laugardaginn og myndatakan leiddi í ljós að það hefði ekki slitnað en rifnað talsvert.

Aston Villa á eftir ellefu leiki í deildinni og sá síðasti er 7. maí, eftir nákvæmlega tvo mánuði. Það verður því tæpt að Birkir nái að spila meira með liðinu á þessu tímabili.

Birkir mun missa af mótsleik með íslenska landsliðinu í fyrsta skipti í sex ár þegar það mætir Kósóvó í Shkodër í Albaníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert