„Mun æfa þar til ég missi vatnið“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, mun ekki leika með liðinu á komandi leiktíð.

Í frétt á heimasíðu Stjörnunnar kemur fram:

„Þau tíðindi hafa borist úr herbúðum Stjörnunnar að eftir tíðar fréttir af nýjum leikmönnum í hópi Íslandsmeistaraliðs kvenna, sé enn frekari fjölgunar að vænta. Þannig mun Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði liðsins, vera barnshafandi og fjölga í hópi Stjörnufólks á haustdögum. Er mikil gleði í félaginu yfir þessum góðu fréttum.“

„Ég mun æfa með liðinu a.m.k. þar til ég missi vatnið,“ segir Ásgerður Stefanía sjálf, en bætir svo við í meiri alvöru að hún muni vinna með liðsstjórninni og þjálfarateyminu svo lengi sem ástand hennar leyfi.

„Það eru auðvitað blendnar tilfinningar sem fylgja því að fá jafn gleðilegar fréttir og að geta á sama tíma ekki tekið þátt í komandi tímabili sem leikmaður, enda er ég mjög bjartsýn á gengi þess frábæra hóps sem nú skipar liðið,” segir Ásgerður Stefanía. „En ég kem aftur tvíefld til leiks á næsta tímabili og tek þátt í að verja þá titla sem liðsfélagar mínir vonandi vinna á þessu tímabili.“

Ásgerður Stefanía er 30 ára gömul og hefur spilað stórt hlutverk með liði Stjörnunnar mörg undanfarin ár. Hún á að baki 10 leiki með íslenska A-landsliðinu og lék síðast með því í 1:0 tapi gegn Dönum í október á síðasta ári.

Hún er leikjahæsti leikmaður meistaraflokks kvenna í Stjörnunni frá upphafi, næstleikjahæst hjá félaginu í efstu deild, og hefur tekið þátt í að vinna alla þá Íslands- og bikarmeistaratitla sem liðið hefur unnið frá árinu 2011. Á síðasta ári varð hún níunda konan í sögu íslenskrar knattspyrnu til að spila 200 leiki í efstu deild hér á landi.

mbl.is