Ætlum að gera atlögu að titlinum

Oliver Sigurjónsson í leik með Blikunum gegn Víkingi Ólafsvík á …
Oliver Sigurjónsson í leik með Blikunum gegn Víkingi Ólafsvík á síðustu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætlum að gera atlögu að því sem allir vilja og stefnan er sett á toppbaráttuna í sumar,“ sagði Oliver Sigurjónsson, einn af lykilmönnum Breiðabliks, við mbl.is en Blikarnir hefja leik í Pepsi-deildinni í dag þegar þeir fá nýliða KA í heimsókn.

„Við höfum trú á því innan herbúða Breiðabliks að geta gert atlögu að titlinum. Auðvitað þurfa hlutirnir að ganga upp en við höfum trú á okkur sjálfum,“ sagði Oliver en sjötta sætið varð hlutskipti Kópavogsliðsins í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð.

„Ég hef trú á því að sá mannskapur sem við teflum fram í sumar geti gert góða hluti og að við verðum í og við toppinn í sumar og sérstaklega ef við fáum Elfar Helgason aftur til okkar. Við erum með samstilltan hóp og við erum margir í kringum sama aldur í liðinu. Við höfum margir spilað lengi saman og þekkjum hver annan út í gegn. Ef menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig þá er ég 100% viss um að verðum í baráttunni um titilinn,“ sagði Oliver.

Oliver Sigurjónsson tæklar Skagamanninn Garðar Bergmann Gunnlaugsson.
Oliver Sigurjónsson tæklar Skagamanninn Garðar Bergmann Gunnlaugsson. mbl.is/Árni Sæberg

Helsta vandamál Blikanna á síðustu leiktíð var hversu illa þeim tókst að skora en mörkin urðu 27 í leikjunum 22.

„Já við vorum ekki alveg á skotskónum í fyrra en núna erum við búnir að fá til okkar þrjá öfluga sóknarmenn og með þá og Höskuld erum við vel mannaðir í þessar stöður. Ég tel líka að við séum með mjög mikla breidd inni á miðjunni og öfugt miðað við í fyrra er breiddin meiri hvað sóknarleikinn varðar. Við misstum frá okkur þrjá sterka varnarmenn en ég tel að það eigi ekki að koma að sök.

Gulli markvörður hefur stýrt öftustu varnarlínunni vel og menn eru orðnir vel slípaðir. Svo lengi sem við náum að halda markinu okkar hreinu þá erum við komnir með leikmenn í framlínunni sem geta gert út um leiki,“ segir Oliver, sem Blikarnir ætla stórt hlutverk í sumar.

„Ég er alveg tilbúinn að axla ábyrgð í liðinu og það er ánægjulegt fyrir mig að fá mikilvægt hlutverk með liðinu. Ég þekki þá stöðu vel í gegnum alla yngri flokkana og ég, Gulli, Damir og fleiri erum allir innstilltir á að það draga allir vagninn saman. Það gengur ekki ekki að vera með tvö hjól undir bílnum. Þau þurfa að vera fjögur og stjórntækið í lagi,“ sagði Oliver Sigurjónsson við mbl.is.

mbl.is