Sá slakasti í fjögur ár

„Við höfum stundum spilað illa, en ég held aldrei eins og núna. Þetta var það slakasta í fjögur ár,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 3:1 tap fyrir KA á Kópavogsvelli í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Við verðum heldur betur að taka okkur saman í andlitinu því með svona frammistöðu verðum við í strögli í deildinni. Það er í lagi að tapa leik ef menn leggja sig fram og gera sitt besta, en að tapa leik svona og það opnunarleik mótsins er alveg ferlegt.

Maður hefði haldið að leikmenn væru æstir að komast á rennisléttan grasvöll eftir að hafa barist við veturinn í sex mánuði. Þá eiga menn að vera eins og kýrnar, tilbúnir að hlaupa og djölfast af ánægju. En það var öðru nær hjá okkur í dag,“ sagði Arnar.

mbl.is