Þetta var ekki í lagi

„Þetta var ekki í lagi og við þurfum að skoða okkar mál innanfrá,“ sagði Oliver Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks, daufur í dálkinn eftir 3:1 tap liðsins fyrir KA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Við virtumst hreinlega ekki tilbúnir, vorum of seinir í allar tæklingar og KA-menn voru einfaldlega miklu ákveðnari og betri en við í öllum þáttum fótboltans. Við verðum að skoða okkar mál strax því ætlunin var að breyta heimaleikjahruninu frá því í fyrra, en það gerðist svo sannarlega ekki,“ sagði Oliver.

mbl.is