Guðni í aganefnd FIFA

Guðni Bergsson í ræðustól á þingi KSÍ í Vestmannaeyjum í …
Guðni Bergsson í ræðustól á þingi KSÍ í Vestmannaeyjum í febrúar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, var skipaður í aganefnd Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á þingi þess sem lauk í Bahrein í gær.

„Ég var tilnefndur af UEFA í nefndina sem tekur á agamálum innan FIFA og er nefnd sem horfir til leikmanna, stjórnenda og umboðsmanna og fleira. Það er hluti af því að vera þátttakandi í alþjóðasamstarfi að taka þátt í starfi FIFA. Við getum ekki bara þegið styrki og peninga að utan. Það verður að taka þátt í starfinu.

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, setti sig í samband við mig á fundi í Genf sem við sátum og bað um mig að taka sæti í nefndinni sem hann var áður í. Ég gat ekki annað en samþykkt það enda er gott að geta komið sér inn í starfið. Ég held að þetta geti bara verið áhugavert,“ sagði Guðni við mbl.is en auk hans sátu þingið fyrir Íslands hönd þau Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, og Magnús Gylfason, stjórnarmaður í KSÍ.

Guðni segir að Gianni Infantino forseti FIFA hafi á þinginu farið yfir það sem gert hefur verið á liðnu ári og rætt um spillingarmál sem hafa ítrekað hafa skotið upp kollinum.

„Það eru búnir að vera átakatímar og hann sagði að nú væru nýir og breyttir tímar og að spillingin ætti sér ekki heimili innan FIFA. Hann talaði mjög opinskátt um þessi mál. Infantino er ákveðinn og staðfastur með það ásamt fleirum að gera allt til þess að laga ímyndina og bæta hlutina. Mér sýnist allir vera að vinna í þá átt.

UEFA hélt sérstakan fund þar sem menn skiptust á skoðunum og svo ræddum við saman allir formennirnir af Norðurlöndunum en við hittumst svo hér saman heima í ágúst þegar haldinn verður Norðurlandafundur,“ sagði Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert