Breiðablik í basli með Hauka

Rakel Hönnudóttir í baráttu við tvo leikmenn Hauka í kvöld.
Rakel Hönnudóttir í baráttu við tvo leikmenn Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar tóku á móti Breiðablik í fyrsta leik 5. umferðar Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu en heimamenn höfðu tapað fyrstu fjórum leikjum sínum í sumar og því mikið undir á Ásvöllum í kvöld. Breiðablik vann að lokum 3:1.

Það voru gestirnir í Breiðablik sem tóku frumkvæðið á fyrstu mínútunum og settu mikla pressu á mark heimamanna sem lágu aftarlega á vellinum. Helst var það Fanndís Friðriksdóttir sem var ógnandi frá vinstri kanti gestanna og skapaði hún nokkur álitleg tækifæri sem þær Rakel og Berglind Björg í sókninni náðu ekki að gera sér mat úr.

Það voru svo Haukastelpur sem náðu forystunni, þvert gegn gangi leiksins, á 23. mínútu þegar Marjani Hing-Glover slapp ein í gegn eftir varnarmistök og skoraði gott mark, aðeins það þriðja hjá Haukunum í sumar.

Staðan var 1:0 í hálfleik en síðari hálfleikur hófst á sama hátt og sá fyrri; gestirnir pressuðu stíft og heimamenn bökkuðu aftar á völlinn og kom það því ekki á óvart þegar Fanndís Friðriksdóttir jafnaði metin á 54. mínútu eftir frábæran sprett frá vinstri kantinum.

Fanndís var aftur á ferðinni á 74. mínútu þegar hún skoraði sitt annað mark með glæsilegu langskoti og kom Blikum yfir, 1:2. Andrea Rán Hauksdóttir kláraði einvígið svo endanlega á 84. mínútu eftir afskaplega klaufalegan varnarleik Töru Björk sem missti boltann frá sér inn í vítateig og Andrea þakkaði fyrir sig og skoraði.

Sanngjarn sigur Breiðabliks sem fer upp að hlið Þór/KA, sem á leik til góða, á toppi deildarinnar með 12 stig en Haukar eru áfram án stiga eftir fimm umferðir.

Haukar 1:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Leiknum er lokið. Haukar eru enn án stiga en Breiðablik fer upp að hlið Þór/KA á toppnum, með 12 stig.
mbl.is