Ekki á sömu blaðsíðu í nokkrum málum

Víkingar fagna marki á leiktíðinni.
Víkingar fagna marki á leiktíðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef svo sem litlu við yfirlýsinguna sem við sendum frá okkur að bæta. Það voru nokkur mál sem við náðum ekki að leysa úr og þetta var sameiginleg niðurstaða,“ sagði Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um þau tíðindi sem bárust úr Víkinni í kvöld um að Mi­los Miloj­evic sé hættur sem þjálfari liðsins.

„Þetta gerðist nokkuð fljótt. Við erum ánægðir með liðið sem slíkt. Við unnum flottan sigur á móti KR. Við fórum illa að ráði okkar á móti Grindavík á heimavelli og leikurinn á móti ÍBV, sem spilaður var í hávaðaroki, er ómarktækur. Svo kom fínn leikur á móti Haukum í bikarnum. Þetta snýst ekkert um stöðu liðsins en menn voru ekki á sömu blaðsíðu í nokkrum málum. Við tókum snarpan fund í dag og þetta varð niðurstaðan,“ sagði Haraldur við mbl.is.

Í yfirlýsingu Víkings vegna málsins kemur fram að ástæða starfsloka Milosar hafi verið skoðanaágreiningur sem hafi reynst óyfirstíganlegur.

„Ég vil ekkert ræða þetta nánar. Það voru ákveðin mál sem menn voru ekki sammála um. Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklija munu stýra liðinu á móti Breiðabliki og svo tökum við bara stöðuna eftir þann leik og látum gruggið aðeins setjast,“ sagði Haraldur.

Eru þið komnir með einhver nöfn á blað?

„Nei við erum það ekki. Það er ekkert útilokað að Kazic og Cardaklija verði bara áfram. Við sjáum til hvernig þessi leikur á móti Breiðabliki fer og eftir hann munum við setjast niður og fara yfir stöðuna. Við urðum strand í ákveðnum málum við Milos sem endaði með þessari niðurstöðu,“ sagði Haraldur.

mbl.is