Erfitt að brjóta niður lið sem leggja rútunni

Fanndís Friðriksdóttir með boltann í leiknum í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fanndís Friðriksdóttir var að vonum sátt eftir 3:1 sigur Breiðabliks gegn Haukum í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld en hún skoraði tvö glæsileg mörk í leiknum.

„Mér leið ekkert sérstaklega vel í fyrri hálfleik en við ákváðum að við þyrftum að leggja miklu meira á okkur í seinni hálfleik til að fá þrjú stig í kvöld. Það er oft erfitt að brjóta niður lið sem leggja rútunni og auðvitað hefur maður smá áhyggjur en við fórum yfir hlutina og vorum staðráðnar í því að gera betur,“ sagði Fanndís við mbl.is eftir leikinn.

Heimamenn leiddu 1:0 í hálfleik þökk sé marki Marjani Hing-Glover en Fanndísi tókst að brjóta niður þrjóskan varnarleik Hauka með frábæru marki á 54. mínútu er hún átti langan sprett upp vinstri kantinn og lét vaða af löngu færi, stöngin og inn. Hún var svo aftur á ferðinni á 74. mínútu þegar hún skoraði laglegt mark utan teigs sem fór yfir Ornelu í marki Hauka.

„Það er alltaf gaman að skora og ekki er það leiðinlegra þegar mörkin eru svona glæsileg. Við töpuðum erfiðum leik fyrir norðan en við þurfum að halda áfram að safna stigum og stefna á titilinn,“ sagði Fanndís að lokum.

mbl.is