Erum að byggja upp lið

Hart barist í leik Hauka og Breiðabliks í kvöld.
Hart barist í leik Hauka og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kjartan Stefánsson, þjálfari Hauka, var þokkalega sáttur með frammistöðu liðsins í 1:3 tapi gegn Breiðabliki í 5. umferð Pepsi-deildar kvenna á Ásvöllum í kvöld.

„Mér líður bara vel, við héldum skipulaginu ágætlega og taktíkin var lengst af með okkur en svo þegar leið á leikinn, sérstaklega í seinni hálfleik, vorum við með varnarlínuna allt of aftarlega og þar kemur inn í ákveðið reynsluleysi og slíkt, sagði Kjartan í viðtali við mbl.is.“

Marjani Hing-Glover kom Haukum í forystu með góðu marki á 23. mínútu en pressa Breiðabliks fór að segja til sín í síðari hálfleik og Fanndís Friðriksdóttir skoraði tvö glæsileg mörk áður en Andrea Rán Snæfeld gerði út um einvígið seint í leiknum.

„Við erum að byggja upp lið og láta reyna á leikmenn aftur og aftur í góðri trú um að þeir styrkist. Við erum með gríðarlega ungt lið og einhvern veginn verður maður að gera þetta,“ sagði Kjartan en Haukar eru án stiga eftir fyrstu fimm umferðir sumarsins.

„Það eru fjórir leikmenn yfir tvítugt í byrjunarliðinu en þetta er besta liðið okkar í dag. Við ætlum að nota þetta sumar í það að vera betri Haukar og reyna að halda okkur uppi.“

„Fyrir ári síðan vorum við að bera okkur saman við lið sem eru núna í 2. og 1. deild. Núna erum við að bera okkur saman við Þór/KA og Breiðablik og vissulega eigum við svolítið í land en við komum ágætlega undan þessum leikjum.“

Kjartan er vongóður um að liðið verði búið að öðlast ákveðna reynslu í seinni umferðinni og geti safnað nægilega mörgum stigum til að halda sér uppi í deildinni.

„Við viljum ná nokkrum stigum út úr ákveðnum leikjum, við vorum á eftir áætlun þegar mótið byrjaði og hópurinn ekki nógu þéttur. Ég vonast til að við séum að stíga hratt og vel upp á við en þetta verður mikil brekka, það er alveg klárt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert