Skil vel að fólk skipti um stöð

Orri Sigurður Ómarsson
Orri Sigurður Ómarsson mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Orri Sigurður Ómarsson, leikmaður Vals dró Stjörnuna úr pottinum er dregið var í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu í dag. Valur fær því heimsókn frá Garðabænum, en Valsmenn eru bikarmeistarar síðustu tveggja ára. 

„Þetta er með því erfiðara sem við gátum fengið úr pottinum en það skiptir ekki máli fyrir okkur. Okkur er eiginlega alveg sama. Við höfum ekki verið heppnir í þessum dráttum undanfarin tvö ár, en við tökum bara því sem kemur og við förum í alla leiki til að vinna þá."

Orri segir að leikurinn gegn Víkingi Ólafsvík í 32-liða úrslitunum hafi ekki verið sá skemmtilegasti. 

„Þetta var ekki skemmtilegur fótboltaleikur og ef það var einhver sem skipti um stöð, þá skil ég það vel. Þetta var baráttuleikur þar sem völlurinn bauð ekki upp á mikið meira. Það var mikið af skallaeinvígum og boltinn var mikið í loftinu. Við náðum að koma inn einu marki og það er það sem skiptir máli."

Blaðamaður mbl.is spurði Orra hvers vegna Val hefur gengið betur í bikarnum en deildinni síðustu tvö ár. 

„Munurinn á þessum keppnum er að í bikarnum þarf bara fimm leiki til að vinna. Ég veit ekki af hverju okkur hefur gengið betur í bikarnum, þetta eru allt úrslitaleikir og við tökum einn fyrir í einu," sagði miðvörðurinn að lokum. 

mbl.is