ÍA áfram í bikarnum eftir framlengingu

Skagamenn fagna marki.
Skagamenn fagna marki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍA er komið í 8-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir 2:1 sigur í framlengdum leik á Akranesi í kvöld. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði bæði mörk ÍA. 

Skagamenn voru sterkari aðilinn og töluvert meira með boltann í fyrri hálfleik en þeim tókst ekki að skapa sér alvöru færi og var lítið að gera hjá Terrance William Dieterich í marki Gróttu. Besta færi hálfleiksins fékk svo Agnar Guðjónsson sem komst einn gegn Páli Gísla Jónssyni, en Páll Gísli varði slappa afgreiðslu Agnars. Staðan eftir bragðdaufan fyrri hálfleik var því 0:0.

Svipað var uppi á teningnum í seinni hálfleik. ÍA var meira með boltann en lítið var skapað. Það kom því nokkuð á óvart þegar Grótta komst yfir eftir 64 mínútur. Ingólfur Sigurðsson tók þá aukaspyrnu utan af kanti og fór boltinn fram hjá öllum og í hornið.

Gróttumenn slökuðu mikið á eftir markið og fengu Skagamenn nokkur fín færi til að jafna. Jöfnunarmarkið kom svo á 83. mínútu er Tryggvi Hrafn Haraldsson skallaði í netið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Þrátt fyrir þunga pressu Skagamanna eftir það var ekki meira skorað í venjulegum leiktíma og því var framlengt.

Á fimmtu mínútu framlengingarinnar átti Arnar Már Guðjónsson fast skot sem Terrance Dieterich varði, en beint fyrir fætur Tryggva Hrafns Haraldssonar sem skoraði af öryggi. Halldór Kristján Baldursson fékk sitt annað gula spjald þegar tíu mínútur voru eftir af framlengingunni, en þrátt fyrir að vera manni færri voru Gróttumenn hættulegir það sem eftir lifði. Þeim tókst hins vegar ekki að skora og er bikarævintýri þeirra þetta árið því á enda. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

ÍA 2:1 Grótta opna loka
120. mín. Leik lokið Skagamenn eru komnir í 8-liða úrslit!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert