Í leikmannaleit á Íslandi

FH-ingurinn Kristján Flóki Finnbogason og Stjörnumaðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson.
FH-ingurinn Kristján Flóki Finnbogason og Stjörnumaðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson. mbl.is/Golli

Lars Petter Andressen aðstoðarþjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Tromsö eyddi hvítasunnuhelginni á Íslandi þar sem hann var að skoða leikmenn úr Pepsi-deildinni.

„Ég var að skoða leikmenn og sá fjóra leiki í efstu deildinni á Íslandi. Þar er markaður sem er mjög spennandi fyrir okkur og við höfum fylgst með,“ segir Andressen í viðtali við vefinn iTromsö en Tromsö er að leita fyrir sér að leikmönnum sem það getur fengið þegar næstu tveir félagaskiptagluggar opnast.

Landsliðsmaðurinn Aron Sigurðarson leikur með Tromsö en norska félagið fékk hann frá Fjölni fyrir síðustu leiktíð og hefur Aron átt góðu gengi að fagna með liðinu.

Að því er iTromsö hefur heimildir fyrir var aðstoðarþjálfari Tromsö á eftirtöldum leikjum: Valur - ÍBV, FH-Stjarnan, Víkingur Ólafsvík - KA og Víkingur R - Fjölnir.

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að Kristján Flóki Finnbogason, framherji Íslandsmeistara FH, hafi verið einn þeirra leikmanna sem Andressen skoðaði sérstaklega en Kristján Flóki skoraði eitt af þremur mörkum FH í leiknum á móti Stjörnunni og hefur skorað 4 mörk í fyrstu sex umferðunum í Pepsi-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert