Króatar pirraðir: „No more“

Modric á blaðamannafundi fyrir leikinn.
Modric á blaðamannafundi fyrir leikinn. mbl.is/Hanna

Leikmenn króatíska landsliðsins í knattspyrnu voru skiljanlega ekki kátir eftir 1:0-tap gegn Íslandi í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld. Tvær skærustu stjörnur liðsins neituðu að ræða við blaðamann mbl.is eftir leikinn í Laugardalnum.

Sóknarmaðurinn Mario Mandzukic virtist heyra illa er blaðamaður reyndi að ná í skottið á honum í fjölmiðlasvæðinu fyrir neðan Laugardalsvöll. Eftir að hafa kallað „Mario“ fimm sinnum leit Mandzukic við, og strunsaði sína leið án þess að gefa færi á spjalli.

Fyrirliðinn Luka Modric ræddi vel og lengi við samlanda sína og íslenska ljósvakamiðla. Þegar því lauk reyndi blaðamaður að ná í skottið á honum. Modric, sem vann Meistaradeild Evrópu með Real Madrid fyrir viku, virtist þreyttur og gaf ekki færi á sér. „No more,“ sagði Modric og strunsaði út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert