Ég vil ekki loka sögunni svona

Margrét Lára Viðarsdóttir fékk aðhlynningu þegar hún meiddist í Haukaleiknum ...
Margrét Lára Viðarsdóttir fékk aðhlynningu þegar hún meiddist í Haukaleiknum 29. maí en fór aftur inná í smástund. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er náttúrlega ömurlegt, það er ekkert hægt að skafa utan af því. Ég hélt að ég væri búin með minn skerf af þessum meiðslapakka þannig að þetta kom mér illilega á óvart, verð ég að segja," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu þegar mbl.is ræddi við hana á Laugardalsvellinum í kvöld.

Fyrir landsleik Íslands og Brasilíu í kvöld tilkynnti KSÍ að Margrét yrði ekki með liðinu í lokakeppni EM í Hollandi í næsta mánuði þar sem í ljós hefði komið að hún væri með slitið krossband í hné.

Margrét varð fyrir meiðslunum í síðasta leik Vals fyrir landsleikjahléið, gegn Haukum 29. maí, þar sem hún fór af velli eftir hálftíma leik. Þá hafði hún reyndar farið af velli, komið aftur inná og spilað í um það bil eina mínútu áður en ljóst varð að hún gæti ekki haldið leik áfram.

Margrét hafði hinsvegar reiknað með því að meiðslin væru ekki alvarleg og stefndi fullum fetum á að vera tilbúin í slaginn þegar kæmi að EM í Hollandi um miðjan næsta mánuð.

Fer í aðgerð í fyrramálið

„Ég komst bara að því seinnipartinn í gær að krossbandið væri slitið. Þetta var dálítið óvenjulegt því þegar þetta gerðist stóð ég upp, kom mér sjálf útaf vellinum, teipaði mig og fór aftur inná. En málið er að ég bý vel að því að hafa byggt líkamann mjög vel upp, hef gert mikið af fyrirbyggjandi æfingum vegna minna meiðsla og það er allt sami pakkinn í sjálfu sér. Í grunninn er ég með sterka fætur og sterk liðbönd á þessu svæði, og það jákvæða er að allt annað í kringum hnéð er alveg heilt. Það er bara þetta bannsetta fremra krossband sem er slitið og það gerir manni þann grikk að þá er ekki hægt að spila fótbolta.

Margrét Lára Viðarsdóttir var á landsliðsæfingu í vikunni.
Margrét Lára Viðarsdóttir var á landsliðsæfingu í vikunni. mbl.is/Golli

En ég fer í aðgerð strax í fyrramálið, sem er líka óvenjulegt. Miðað við hvernig þetta atvikaðist allt saman þá er ég heppin, en hinsvegar óheppin að þetta gerist einmitt á þessum tímapunkti, og þá skuli það vera þessi meiðsli en ekki eitthvað allt annað. Ég hefði tekið mörgu öðru, ef ég hefði fengið að velja.“

Margrét Lára hefur verið í fararbroddi í íslenska landsliðinu um langt árabil, eftir að hafa fyrst spilað með því 16 ára gömul árið 2003. Hún er lang markahæsti leikmaður þess með 77 mörk og sú næstleikjahæsta með 117 landsleiki. Margrét lék með Íslandi á EM 2009 og 2013, skoraði í 1:1 jafntefli gegn Noregi í síðarnefndu keppninni, og var á leið á sitt þriðja Evrópumót.

„Þetta átti að vera draumi líkast og er búið að vera algjört ævintýri undanfarin þrjú til fjögur ár. Liðið er orðið gríðarlega sterkt eins og það sýndi hérna í kvöld. Heildin er orðin svo massíf, varnarleikurinn orðinn svo traustur, og fyrir sóknarmann eins og mig hafa það verið forréttindi að vera í því hlutverki að klára sóknirnar eftir þennan frábæra varnarleik. En núna stíga bara aðrir upp og ég treysti þessum stelpum alveg hundrað prósent til þess að standa sig."

Hlýtur að koma frá pabba!

Elísa Viðarsdóttir, systir Margrétar, lenti í nákvæmlega því sama í apríl þegar hún sleit krossband í leik Íslands gegn Hollandi, auk þess sem Dóra María Lárusdóttir liðsfélagi þeirra í Val og landsliðinu varð fyrir sömu meiðslum í mars. Faðir Margrétar og Elísu er Viðar Elíasson, sem á sínum tíma lék með ÍBV og Víkingi í Reykjavík, og hann kynntist þessu líka.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Úlfur Blandon eftir að hún fór ...
Margrét Lára Viðarsdóttir og Úlfur Blandon eftir að hún fór af velli í Haukaleiknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Já, við kennum pabba um þetta, hann sleit krossband á sínum tíma. Þetta hlýtur að koma frá honum! Hann lenti í þessu um tvítugt, mun yngri en við, svo þetta virðist vera í fjölskyldunni! Við verðum verðum bara að taka þetta á húmornum. Það hefur fjölskyldan alltaf gert, og stutt hvert annað. Við systurnar göngum saman í gegnum þetta sem er gott á sinn hátt því við getum stutt hvor aðra andlega."

Margrét Lára er þrítug og hefur spilað meistaraflokksfótbolta hálfa ævina, lengi sem atvinnumaður í Svíþjóð og Þýskalandi. Hún ætlar sér að halda áfram þrátt fyrir þetta áfall sem mun væntanlega halda henni frá knattspyrnunni framundir næsta vor.

Hjartað er sært en ekki hætt að slá

„Já, það er náttúrulega markmiðið. Auðvitað vill maður ekki gefa neitt of mikið út þegar maður veit ekkert um hvernig aðgerðin muni ganga og hvernig bataferlið muni virka. En ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að ég fái þetta hægra hné mitt aftur í lag og stefnan er auðvitað að spila fótbolta aftur.

Ég vil ekki loka sögunni svona - það væri ekki hægt. Mér þykir ofboðslega vænt um minn feril og það sem ég hef gert, ég hef gengið í gegnum ýmislegt, spilaði meidd í átta ár og fór í frábæra aðgerð síðasta haust sem heppnaðist svo vel. Ég var að nálgast mitt gamla form og var loksins farin að æfa eins og knattspyrnukona á að gera, alla daga. Svo kemur þetta, sem er mikill skellur. Hef gengið í gegnum ýmislegt sem hefur ekki drepið mig ennþá. Ég held ótrauð áfram. Hjartað er sært, en það er ekki hætt að slá. Ég kem aftur!" sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina