Margrét Lára verður með liðinu í Hollandi

Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn íslenska liðsins eftir leikinn í …
Freyr Alexandersson ræðir við leikmenn íslenska liðsins eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu var nokkuð sáttur með frammistöðu liðsins í 1:0 tapinu gegn Brasilíu í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld. Hann segir íslenska liðið hafa skapað fullt af færum og að lærimeyjar hans hafi verið óheppnar að vera ekki yfir í hálfleik. 

„Maður vissi ekki alveg hvernig maður átti að hafa tilfinningarnar fyrir leik. Við vissum að við værum að fara að spila við gott lið, en á sama tíma höfum við mikla trú á því sem við erum að gera og ég var mjög forvitinn að sjá hvort það myndi virka,"

„Við sköpuðum fullt af færum og höldum þeim í skefjum þangað til í seinni hálfleik, þá ná þær 20 mínútum sem eru góðar og það er kafli sem við munum skoða vel. Ég er mjög ánægður með liðið. Þær fá eitt færi í fyrri hálfleik á meðan við fáum fjögur dauðafæri."

Freyr hrósaði Öglu Maríu Albertsdóttir sérstaklega, en hún er aðeins 18 ára gömul og var að spila sinn þriðja landsleik í dag. 

„Hún var að spila hrikalega vel, bæði varnarlega og sóknarlega. Hún er búin að þroskast hratt og ég er rosalega ánægður með hennar framlag."

Íslenska liðið hefur spilað tvo leiki í röð, án þess að skora mark, en Freyr hefur ekki sérstakar áhyggjur af því. 

„Þetta hefur gerst áður en mörkin munu koma á færibandi. Ef við værum ekki að skapa okkur færi væri ég stressaður. Ég er ekki sáttur við þetta en ég væri stressaður ef við værum ekki að skapa okkur færi. Við þurfum að vera kaldari í hausnum þegar við komum okkur í færi."

Fyrir leik bárust þær fréttir að Margrét Lára Viðarsdóttir, landsliðsfyrirliði verður ekki með á Evrópumótinu í Hollandi og segir Freyr það vera mikið áfall. Hann bætti síðan við að Margrét verði með liðinu í Hollandi, en ekki er enn vitað í hvaða hlutverki. 

„Þetta kom seint í gær og þetta var mikið sjokk. Þetta er sorglegt og ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Þetta er fyrirliði liðsins og markahæsti leikmaður í sögu landsliðsins. Hún er leiðtogi og skiptir okkur miklu máli. Þetta er sorglegt en við getum ekki dvalið við þetta. Við verðum að halda áfram að hugsa áfram, hún vill að við gerum það. Hún verður með okkur í Hollandi en við eigum eftir að ræða hvar hún verður staðsett," sagði Freyr að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert