Andri og Hólmbert undir smásjá

Andri Rúnar Bjarnason hefur farið á kostum með nýliðum Grindavíkur.
Andri Rúnar Bjarnason hefur farið á kostum með nýliðum Grindavíkur. Ljósmynd/Víkurfréttir

Eins og mbl.is greindi frá á dögunum þá var Lars Petter Andressen, aðstoðarþjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Tromsö, hér á landi á dögunum að skoða leikmenn úr Pepsi-deildinni.

Þegar var búið að opinbera að Kristján Flóki Finnbogason, framherji FH, hefði verið hans helsta skotmark og Aron Sigurðarson, leikmaður Tromsö, sagði sjálfur á dögunum að forráðamenn félagsins hefðu spurt sig út í Kristján Flóka.

Norski miðillinn Nordlys greindi svo frá því að Andri Rúnar Bjarnason, leikmaður Grindavíkur, og Hólmbert Aron Friðjónsson hjá Stjörnunni hafi einnig vakið athygli Andressen. Andri Rúnar hefur skorað 9 mörk í 8 leikjum í deildinni.

„Við erum að fylgjast með nokkrum leikmönnum í nokkrum stöðum. Það eru spennandi leikmenn á Íslandi en eins og staðan er núna er ekkert fast í hendi,“ sagði Andressen um Íslandsförina.

mbl.is