Betra að fá eitt stig en ekkert

Óskar Örn Hauksson skoraði mark KR í kvöld.
Óskar Örn Hauksson skoraði mark KR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við geta unnið þennan leik miðað við spilamennskuna og framlag,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, eftir 1:1-jafntefli liðsins við Breiðablik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Óskar Örn Hauksson tryggði KR stig með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Við klúðrum hérna urmul af færum og vorum með yfirburði fyrstu 20 mínúturnar. Blikarnir eru með gott lið og komu sér vel inn í leikinn. Við áttum að klára fleiri færi og vinna leikinn en úr því sem komið var er betra að fá eitt stig en ekkert,“ sagði Willum.

Þjálfarinn hrósaði leikmönnum sínum fyrir að hafa haldið áfram þrátt fyrir að bölvanlega gengi að koma boltanum í markið. „Liðið hélt áfram og nær í víti og punkt á lokamínútunum. Það sýnir skapstyrk sem hægt er að byggja á.“

KR er með átta stig að loknum átta umferðum og Willum viðurkennir fúslega að hann sé óánægður með það. „Ég hef svo mikla trú á þessu liði þannig að þetta er ekki nálægt væntingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert