„Ég veit ekkert hvaða lið þetta er“

Bjarni Ólafur Eiríksson.
Bjarni Ólafur Eiríksson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég veit ekkert hvaða lið þetta er,“ sagði Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals, en hann var á hlaupabrettinu þegar mbl.is heyrði í honum eftir að Valur dróst á móti Ventspils frá Lettlandi í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í dag.

„Þetta verður rosalega skemmtilegt. Við fengum smjörþefinn af þessu í fyrra og vorum drullusvekktir hvernig það endaði, svo við erum staðráðnir í að gera betur en þá,“ sagði Bjarni Ólafur, en Valur tapaði fyrir Bröndby frá Danmörku í fyrra.

Án þess að vita mikið um liðið grunar Bjarna að Valsmenn hefðu getað fengið sterkari andstæðing. Þar voru meðal annars Haugesund frá Noregi og Midtjylland frá Danmörku.

„Mig grunar að þessi lið frá Skandinavíu hafi verið sterkari. Midtjylland held ég að sé svolítið langt á undan okkur allavega, svo kannski eigum við meiri möguleika þarna. Þetta er eitt af því skemmtilegasta sem þú gerir, að reyna sig á móti erlendum andstæðingum,“ sagði Bjarni Ólafur, en nú tekur við upplýsingaöflun hjá þjálfaranum Ólafi Jóhannessyni um andstæðinginn.

„Bjössi Hreiðars [Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari] var að mæla með því að Óli myndi kaupa sér áskrift að ríkissjónvarpinu þarna og finna einhvern leik. Hann þarf að fara að grafa upp netáskrift hjá þeim,“ sagði Bjarni Ólafur léttur áður en mbl.is sleppti honum lausum á hlaupabrettinu á ný.

Ventspils er í fimmta sæti lettnesku úrvalsdeildarinnar þegar leiknar hafa verið 12 umferðir af 28. Liðið leikur átjánda árið í röð í Evrópukeppni og komst í riðlakeppni Evrópudeildarinnar haustið 2009 eftir að hafa slegið út BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert