Evrópukeppnin í fyrra gaf okkur mikið

Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að vera mjög ánægður með þennan drátt eða ekki,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, þegar mbl.is færði honum tíðindin um mótherja liðsins í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. KR fer til Finnlands og mætir Seinäjoki.

„Ég veit ekkert, en upp á ferðalagið að gera þá er þetta örugglega nokkuð gott. Með liðið sjálft verð ég að viðurkenna kunnáttuleysi mitt,“ sagði Pálmi, en þetta er liðið sem FH sló út fyrir tveimur árum.

„Þá ættum við kannski að vera svona þokkalega ánægðir með þennan drátt, með fyrirvara að ég viti ekki hversu sterkt þetta lið er. En það skiptir ekki öllu máli þessa dagana, við þurfum hvort sem er að hugsa meira um sjálfa okkur en andstæðingana þessa dagana,“ sagði Pálmi.

KR hefur gengið illa í Pepsi-deildinni það sem af er og er Evrópukeppnin kærkomið uppbrot.

„Evrópukeppnin í fyrra gaf okkur mikinn kraft. Við náðum mjög góðum sigri í fyrstu umferðinni í fyrra og það gaf okkur sjálfstraust og var eitt af því sem hjálpaði okkur að snúa við tímabilinu. Ég vona bara að umsnúningurinn núna verði fyrr en í Evrópuleikjunum, en þeir verða vonandi bara hluti af því,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason við mbl.is.

mbl.is