KR í fallsæti eða efri hlutann?

KR-ingar mæta Breiðabliki en Skagamenn fá Fjölni í heimsókn.
KR-ingar mæta Breiðabliki en Skagamenn fá Fjölni í heimsókn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR-ingar gætu verið komnir í fallsæti eftir leiki kvöldsins í Pepsi-deild karla en þeir gætu líka verið komnir uppfyrir miðja deild, allt eftir því hvernig þeim vegnar gegn Breiðabliki og aðrir leikir kvöldsins enda.

Fjórir síðari leikirnir í áttundu umferð fara fram í kvöld. ÍA - Fjölnir, FH - Víkingur R. og Víkingur Ó. - Stjarnan hefjast kl. 19.15 og leikur KR og Breiðabliks kl. 20.

Ef KR tapar fyrir Breiðabliki og ÍA vinnur Fjölni komast Skagamenn uppfyrir KR-inga sem þá síga niður í ellefta sætið.

Ef KR vinnur Breiðablik og Víkingur R. tapar fyrir FH geta KR-ingar verið komnir upp í sjötta sæti deildarinnar.

ÍA - Fjölnir er lykilleikur í fallbaráttunni því Skagamenn geta galopnað hana með sigri og um leið dregið Grafarvogsliðið niður í hana af fullum þunga.

Stjarnan sækir Víking heim til Ólafsvíkur og þarf þrjú stig þar til að dragast ekki aftur úr toppliðum Vals og Grindavíkur sem bæði unnu leiki sína í gærkvöld. Valur er nú með 19 stig, Grindavík 17 og Stjarnan 13 stig.

Eins þurfa Ólafsvíkingar að fara að hirða stig á heimavelli til að bæta stöðu sína á botni deildarinnar en þeir gætu með sigri verið komnir að hlið KR eftir leiki kvöldsins.

Sigurvegarinn í leik FH og Víkings R., sem eru bæði með 10 stig, kemst upp í fjórða og jafnvel í þriðja sæti deildarinnar.

ÍA - Fjölnir kl. 19.15

Skagamenn hafa aðeins einu sinni unnið Fjölni í sex leikjum liðanna í efstu deild. Sá sigur kom á Akranesvelli í fyrra þar sem Garðar Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið.

Fjölnir hefur haldið hreinu í fjórum leikjum af sex gegn ÍA og markatalan er 15:5, Grafarvogsliðinu í hag.

FH - Víkingur R. kl. 19.15

Víkingur vann langþráðan sigur á  FH í fyrra, þann fyrsta í 18 leikjum í deildinni, þar sem Alex Freyr Hilmarsson skoraði sigurmarkið, 1:0. Liðin  gerðu 2:2 jafntefli í Kaplakrika.

Víkingur vann FH síðast í Kaplakrika árið 1991, þá 4:2, þar sem Guðmundur Steinsson gerði tvö markanna.

Alls hafa 14 af 38 leikjum félaganna á milli í efstu deild endað með jafntefli. FH hefur unnið 13 leiki og Víkingur 11.

Víkingur Ó. - Stjarnan kl. 19.15

Stjarnan hefur unnið þrjár af fjórum viðureignum félaganna í efstu deild og einu sinni hafa þau skilið jöfn. Í fyrra skoraði Arnar Már Björgvinsson fyrir Stjörnuna í báðum leikjum sem Garðabæjarliðið vann, 3:2 í Ólafsvík og 4:1 í Garðabæ.

KR - Breiðablik kl. 20

Breiðablik hefur ekki tapað í síðustu fimm leikjum liðanna í deildinni en fjórir þeirra hafa endað með jafntefli. Blikar unnu heimaleik sinn í fyrra, 1:0, með marki Höskulds Gunnlaugssonar.

KR hefur unnið 27 leiki en Breiðablik 14 af 60 viðureignum félaganna í efstu deild frá upphafi.

mbl.is