Staðan í deildinni kemur okkur alls ekki á óvart

Sandra María Jessen skoraði þrennu.
Sandra María Jessen skoraði þrennu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þessi staða kemur okkur ekkert á óvart. Við vissum að við gætum þetta, en það tók smá tíma að sannfæra okkur sjálfar um að við gætum þetta,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði kvennaliðs Þórs/KA og leikmaður 8. umferðarinnar, við Morgunblaðið í gær.

Liðinu var spáð fjórða sæti í Pepsi-deildinni en er í efsta sæti eftir átta umferðir með fullt hús stiga og hefur skorað 21 mark og aðeins fengið á sig þrjú. Akureyringar eru sex stigum á undan Breiðabliki sem er í öðru sæti. Fyrirliðinn segir að það hafi orðið hugarfarsbreyting hjá leikmönnum.

Donni [Halldór Jón Sigurðsson] kom og bætti ofan á það sem Jói [Jóhann Kristinn Gunnarsson] var búinn að gera vel undanfarin ár og stimplaði það inn í hausinn á okkur að við værum sigurvegarar og að við gætum þetta. Hann fékk okkur til að trúa því að við gætum þetta. Eftir fyrstu tvo leikina í deildinni sáum við að okkur voru allir vegir færir og sáum að við getum þetta alveg.“

Liðið tók á móti Grindavík í síðasta leik í deildinni og þar gerði Sandra María þrjú mörk auk þess að leggja upp eitt. Hún hefur nú gert fjögur mörk í þeim fimm leikjum sem hún hefur leikið í deildinni.

Nánar er rætt við Söndru Maríu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.