Viðar gæti mætt KR í Evrópukeppninni

Rúnar Már Sigurjónsson mætti KR með Grasshoppers í fyrra og ...
Rúnar Már Sigurjónsson mætti KR með Grasshoppers í fyrra og nú gæti Viðar Örn Kjartansson einnig mætt KR-ingum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel Aviv gæti mætt KR í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu ef bæði lið komast þangað. Dregið var í 2. umferðina nú rétt í þessu.

KR mætir Seinäjoki frá Finnlandi í fyrstu umferðinni á meðan Viðar og félagar mæta KF Tirana frá Albaníu. Sigurliðin í þessum viðureignum mætast svo og þar gæti Viðar mætt KR-ingum.

Stjarnan mun mæta Mladá Boleslav frá Tékklandi í 2. umferð forkeppninnar ef liðið slær út Shamrock Rovers frá Írlandi. Tékkarnir höfnuðu í fjórða sæti deildarinnar heima fyrir, en eru ekki ókunnugir Íslandi því liðið sló út Þór frá Akureyri í 2. umferðinni árið 2012.

Ef Valur slær út Ventspils frá Lettlandi í 1. umferðinni mætir liðið annað hvort Domzale frá Slóveníu eða Flora Tallinn frá Eistlandi.

Fyrri leikir annarrar umferðar fer fram 13. júlí og síðari leikirnir 20. júlí.

mbl.is