„Alltaf stórleikir á móti FH“

Gunnleifur Gunnleifsson og félagar hans í Breiðabliki taka á móti …
Gunnleifur Gunnleifsson og félagar hans í Breiðabliki taka á móti Íslandsmeisturum FH í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Tíunda umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hefst í kvöld þegar Breiðablik tekur á móti Íslandsmeisturum FH á Kópavogsvelli.

FH-ingar eru í 4. sæti deildarinnar með 14 stig en Blikarnir eru í 8. sætinu með 11 stig. Leikurinn er því mjög mikilvægur fyrir bæði lið og það er Gunnleifur Gunnleifsson markvörður og fyrirliði Blikanna meðvitaður um en Gunnleifur þekkir vel til FH-liðsins eftir að hafa spilað þrjár leiktíðir með liðinu frá 2010-12.

„Mér finnst allir leikir skemmtilegir en miðað við söguna að hafa spilað með FH og hvað liðið hefur afrekað mörg undanfarin ár þá eru það alltaf stórleikir þegar maður spilar gegn FH-ingum. Miðað við stöðu okkar í deildinni þá er þessi leikur gríðarlega mikilvægur. Með sigri getum við komið okkur almennilega inn í mótið. Það hefur verið stígandi í okkar leik þó svo að stigasöfnunin hafi ekki verið nægilega góð. Við viljum því nota þennan leik til að koma okkur í betri stöðu og nálgast efri liðin í deildinni,“ sagði Gunnleifur í samtali við mbl.is.

„Við teljum okkur hafa á mjög góðu liði að skipa og teljum okkur hafa gæðin til að geta unnið lið eins og FH á góðum degi. Ég þekki FH vel. Gengi liðsins undanfarin 10 til 15 ár hefur verið með ólíkindum gott og ég held að maður þurfi að vera ansi þunnur í toppstykkinu ef maður ætlar að fara að vanmeta FH alveg sama hvort lið þeirra hafi verið í lægð eða ekki. Við erum allir meðvitaðir um það að við verðum að eiga toppleik til þess að leggja FH að velli,“ sagði Gunnleifur.

Oliver Sigurjónsson er búinn að jafna sig af meiðslum en hann hefur ekkert spilað frá því í leiknum á móti KA í 1. umferðinni þegar hann varð fyrir meiðslum. Gunnleifur segir að Oliver verði í leikmannahópnum í kvöld og það séu góð tíðindi fyrir sína menn.

FH hafði betur, 1:0, þegar liðin áttust við í Pepsi-deildinni á Kópavogsvelli í fyrra en Emil Pálsson skoraði sigurmarkið á 5. mínútu leiksins. Í seinni leiknum í Kaplakrika skildu liðin jöfn, 1:1 þar sem Árni Vilhjálmsson kom Blikum yfir á 32. mínútu en Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin fyrir FH-inga mínútu síðar.

Flautað verður til leiks á Kópavogsvelli klukkan 20 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is