Góðir hlutir að fara að gerast

Sandra María Jessen, til vinstri, og Glódís Perla Viggósdóttir.
Sandra María Jessen, til vinstri, og Glódís Perla Viggósdóttir. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Skrokkurinn er bara mjög góður og hann er ekkert að kvarta. Hnéð er orðið gott og formið er orðið mjög fínt. Ég er virkilega ánægð með stöðu mína,“ sagði landsliðskonan Sandra María Jessen við mbl.is fyrir æfingu kvennalandsliðsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag.

Sandra María meiddist illa í leik á móti Noregi í Algarve-bikarnum í byrjun mars og í kjölfarið var þátttaka hennar með landsliðinu á EM í óvissu.

„Ég held að flestir sem sáu myndbandið þegar ég meiddist og hvernig mín fyrstu viðbrögð voru eftir þetta hafi haldið að EM væri ekki inni í myndinni hjá mér. En um leið ég fékk þær fréttir að aftara krossbandið hefði slitnað og ég þyrfti ekki að fara í aðgerð þá sagði skurðlæknirinn við mig að það væri möguleiki fyrir mig að komast á EM en hann væri ekki mikill.

Ég ákvað um leið að grípa tækifærið og gera allt sem ég gæti til að komast í gott stand á ný í tæka tíð og það tókst. Það hjálpaði mikið til að ég var í mjög góðu formi þegar ég meiddist og þó svo ég hafi ekki verið að spila fótbolta í nokkrar vikur á eftir þá gat ég gert ýmislegt annað eins og að hjóla og synda.

Getum ýmislegt lært af karlaliðinu

Svo hefur verið spilað þétt í deildinni síðustu vikurnar og það hefur hjálpað mér að ná upp leikforminu. Ég kem með gott sjálfstraust í þetta EM-verkefni og er tilbúin í hvað sem er,“ sagði Sandra María en hún og liðsfélagar hennar í Þór/KA eru á góðri leið með að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Um Evrópumótið sem fram undan er segir Sandra María;

„Við erum allar búnar að vera að bíða eftir júlímánuði í langan tíma og það er eðlilega mikil spenna og tilhlökkun hjá okkur. Andrúmsloftið í landsliðshópnum er mjög gott og ég finn það á mér að það eru góðir hlutir að fara að gerast. Við getum ýmislegt lært af karlaliðinu sem sló í gegn á EM í fyrra. Við ætlum að reyna að leika sama leik og þeir gerðu. Við getum tekið velgengni karlaliðsins með okkur til Hollands.“

mbl.is