„Hugleysi dómarans skipti sköpum“

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var mjög svekkjandi. Mér fannst við vera með gott framlag í leiknum og við vitum í hverju Valsmenn eru sterkir. Þeir héldu kannski boltanum inni á miðjunni en þeir sköpuðu ekki opin færi að mér fannst og það er það sem við lögðum upp með,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga, eftir 0:1-tap á heimavelli gegn Val í kvöld.

„Við gerum bara mistök í þessu marki sem þeir skora. Þetta er eiginlega bara fyrsta skot þeirra á markið í sjálfu sér. Ég er eiginlega mest svekktur út af því. Við vissum að við værum að spila á móti öflugu liði sem er kannski besta liðið á landinu í dag. Það var ekki um annað að ræða en spila öfluga vörn,“ sagði Logi.

Víkingar reyndu að jafna leikinn eftir að hafa lent undir en það tókst ekki.

„Valsmenn voru talsvert inni í eigin vítateig eftir markið. Við náðum að skapa okkur einhver skotfæri og einhverja hættu en aldrei nein verulega góð færi þannig. En ég held að jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða miðað við gang leiksins.“

Veigar Páll Gunnarsson kom inná undir lok leiks. Hvað getur hann gefið Víkingum?

„Veigar gefur þessu nýja möguleika og nýjar víddir. Þegar hann fær boltann heldur hann honum vel og getur skapað fyrir okkur í framtíðinni.“

Logi segist afar ósáttur með dómgæsluna í leiknum og þá sérstaklega ákvörðun dómarans að vísa Bjarna Ólafi ekki af velli.

„Það sem skipti sköpum í þessum leik var hugleysi dómarans að vísa ekki Bjarna Ólafi af velli. Þetta eru mistök sem hann gerir og við þetta lendir dómarinn í miklum erfiðleikum eftir það, í stað þess að hafa hugrekkið í að vísa honum af velli,“ sagði Logi.

mbl.is