„Smáatriðin skipta máli í svona leikjum“

Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson. Ófeigur Lýðsson

„Svona sigrar skipta gríðarlegu máli; þessir 1:0-sigrar þar sem liðið er búið að vera í mikilli leikjatörn. Þá skiptir sigur miklu máli og sérstaklega þar sem leikmenn eru að kreista þetta fram,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir 0:1-sigur á Víkingi R. á útivelli í kvöld.

Leikurinn var jafn og ekki mikið um færi.

„Það er oft þetta eina færi sem skiptir máli í svona jöfnum leikjum. Þetta eina smáatriði sem dettur inn. Ef við erum klárir í teignum þar sem hlutirnir gerast þá nýtum við sénsana okkar. Mér fannst við fá fleiri sénsa en það, en við nýttum þennan eina í dag. Þetta ræðst yfirleitt á smáatriðum þegar leikir eru svona þéttir.“

Patrick Pedersen, framherji Vals, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið eftir heimkomuna frá Viking Stavanger í Noregi. Hvernig fannst Sigurbirni frammistaða hans í dag?

„Hann kom mjög vel inn í þetta. Hann hefur auðvitað ekki spilað lengi og við erum ánægðir með hans leik. Hann hefur verið flottur á æfingum og var flottur í dag. Þetta var þéttur leikur og hann komst ekki alveg í færið en það bíður betri tíma, við þurftum ekki á því að halda í dag,“ sagði Sigurbjörn.

Haukur Páll fór meiddur af velli eftir stundarfjórðung. Hver er staðan á hans meiðslum?

„Haukur er búinn að vera aðeins stífur aftan í og stífnaði aðeins í dag. Það var engin áhætta tekin með það. Hann var skynsamur og nýr maður kom inná í hans stað og leysti það vel,“ sagði Sigurbjörn að lokum.

mbl.is