Alltaf gott að byrja vel

Svíinn Linus Olsson fagnar marki sínu í kvöld.
Svíinn Linus Olsson fagnar marki sínu í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Það er alltaf gott að byrja vel og að skora eftir tvær mínútur er frábært fyrir sóknarmann, gefur manni sjálfstraust,“ sagði Linus Olsson, sænski sóknarmaður Fjölnis, en hann gekk til liðs við félagið á dögunum og það tók hann aðeins tvær mínútur að skora í sínum fyrsta leik á Íslandi.

Ágúst Gylfason fékk Olsson til Fjölnis í byrjun júlí en hann hafði síðast spilað með Nyköbing í dönsku B-deildinni, hann hefur þó varla búist við svona góðri byrjun frá Svíanum?

„Nei hann átti eflaust ekki von á því en þetta gekk vel. Ég hef verið að æfa með liðinu í tvær vikur og er farinn að kynnast liðsfélögunum.“

Olsson segir að tækifærið til að spila á Íslandi hafi verið spennandi og að gæðin hér á landi séu ekki ósvipuð því sem gengur og gerist í B-deildunum í Svíþjóð og Danmörku.

„Ég hafði heyrt góða hluti um Ísland, ég á vini sem hafa spilað hér og þeir töluðu allir vel um íslenska fótboltann sem er að verða betri og betri, þetta er ævintýri. Það er erfitt að bera saman löndin, þetta er aðeins meira fram og til baka hér en gæðin eru þau sömu og í B-deildunum í Danmörku og Svíþjóð.“

Olsson var ánægður með eigin frammistöðu og vongóður um framhaldið er Fjölnir heldur áfram að berjast fyrir sæti sínu í deildinni.

„Ég er mjög ánægður, ég hefði getað skorað annað mark en við unnum 4:0 gegn toppliði og það er frábært. Við sýndum í dag að við getum haldið okkur uppi en við verðum að halda áfram og leggja hart að okkur í næstu leikjum.“

mbl.is