Víkingur skildi ÍA eftir á botninum

Guðmundur Steinn Hafsteinsson fagnar marki sínum gegn ÍA á Ólafsvíkurvelli …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson fagnar marki sínum gegn ÍA á Ólafsvíkurvelli í kvöld. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Víkingur Ólafsvík fór upp í sjöunda sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu með því að vinna 1:0 heimasigur á Skagamönnum í dag. Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði sigurmarkið á 16. mínútu og sendi ÍA í neðsta sæti deildarinnar í leiðinni.

Víkingar byrjuðu af krafti og Kwame Quee fékk gott færi eftir aðeins nokkrar sekúndur. Eftir því sem leið á hálfleikinn komust Skagamenn meira inn í leikinn og fengu ágætis tækifæri. Það voru hins vegar heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. Guðmundur Steinn Hafsteinsson stýrði þá boltanum í netið eftir aukaspyrnu frá Emir Dokara.

Skagamenn fengu ágætis færi eftir markið, en Christian Martínez í marki Víkings varði vel í tvígang. Fyrst sló hann skot Tryggva Hrafns Haraldssonar yfir markið og síðan varði hann skot Arnars Más Guðjónssonar af stuttu færi. Víkingar fengu líka sitt færi til að skora eftir markið. Ingvar Þór Kale var á undan Þorsteini Má Ragnarssyni í stungusendingu, en hann þrumaði boltann í Þorstein og þaðan rann boltinn rétt framhjá markinu.

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Patryk Stefanski tvö gul spjöld með stuttu millibili. Fyrst braut hann á Quee á miðjum vellinum og síðan braut hann á Christian Martínez, markmanni Ólafsvíkinga og Þóroddur Hjaltalín rak hann út af. Staðan í hálfleik var 1:0, Víkingi í vil.
Seinni hálfleikur var mjög rólegur framan af en Þórður Þorsteinn Þórðarson var nálægt því að skora á 75. mínútu en Christian Martínez varði gott skot hans utan af kanti vel. Pape Faye hefði getað skorað annað mark Víkinga undir blálokin en Ingvar Kale varði skotið hans vel. Það reyndist síðasta færi leiksins og mikilvægur sigur Víkinga staðreynd. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Víkingur Ó. 1:0 ÍA opna loka
90. mín. Kwame Quee (Víkingur Ó.) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert