„Eyjamenn eru gleðipinnar“

Eyjamenn fjölmennir á þjóðarleikvanginum í dag.
Eyjamenn fjölmennir á þjóðarleikvanginum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kristján Guðmundsson stýrði ÍBV til sigurs í Borgunarbikar karla í dag á sínu fyrsta ári sem þjálfari liðsins. ÍBV lagði FH að velli 1:0 í úrslitaleiknum. 

„Það sem skipti mestu máli í úrslitaleiknum var að leikmenn framkvæmdu það sem fyrir þá var lagt. Aðalatriðið i þeirri áætlun var að við skyldum halda boltanum þegar við unnum hann og gátum spilað út úr pressunni. Það var algert lykilatriði. Ég vildi ekki að við færum að missa boltann upp í loftið og náðum að halda honum niðri og koma honum í réttu svæðin og á réttu leikmennina,“ sagði Kristján sem stillti upp 5-3-2 eins og undanfarið og það virkaði afar vel í þetta skiptið. 

„Við fundum í deildarleiknum gegn FH að þeir áttu erfitt með að opna okkur. Við náðum að halda þeim frá okkur og vörðum svæðin fyrir framan vörnina þar sem innhlaupin frá Atla og Lennon eru hættuleg. Í fyrri hálfleik unnum við oft boltann í kringum Atla og Lennon sem var mikilvægt.“

Stuðningsmenn ÍBV voru afar skemmtilegir í dag og sungu Eyjalög allan leikinn með hljóðfæri og hljóðfæraleikara í stúkunni. „Ég er glaður yfir því að fjölmiðlamenn skuli spyrja mig um stuðningsmennina. Það segir mér að stemningin hafi verið geggjuð í stúkunni. Við töluðum saman í vikunni um hvernig við vildum hafa þetta. Helst vildum við hafa söng og gleði enda fylgir það Eyjamönnum og framlengja þannig Þjóðhátíðarhelgina. Eyjamenn eru gleðipinnar og vilja syngja mikið,“ sagði Kristján þegar mbl.is ræddi við hann. 

Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is