Viljum herma eftir karlaliðinu

Ian Jeffs.
Ian Jeffs. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er ánægður með að komast í úrslit,“ sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, eftir að liðið sló Grindavík út í undanúrslitum Borgunarbikars kvenna í knattspyrnu með sigri í vítaspyrnukeppni á Hásteinsvelli í dag.

ÍBV komst í 1:0 í fyrri hálfleik en Grindavík jafnaði metin í uppbótartíma í seinni hálfleik. Eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni fagnaði ÍBV loks sætum sigri:

„Mér fannst það sanngjarnt miðað við hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik. Við yfirspiluðum þær þá og fengum fullt af færum. Seinni hálfleikur var ekki nægilega góður, þá duttum við svolítið frá þeim, en þær sköpuðu samt ekki neitt. Það kom bara þetta færi á 96. mínútu sem þær kláruðu vel. Þetta tók allan kraftinn úr okkur í framlengingunni, en það er sterkur karakter að klára þetta í vító,“ sagði Jeffs.

„Það benti ekkert til þess að þær væru að fara að jafna metin. Mér fannst við vera að fara að sigla þessum 1:0-sigri í höfn nokkuð öruggt. Síðan kom þetta upp og þá tók við svolítið panikk hjá okkur,“ sagði Jeffs.

Karlalið ÍBV fagnaði bikarmeistaratitli í gær og Jeffs vill sjá kvennaliðið gera slíkt hið sama:

„Við höfum stefnt á þetta síðan við byrjuðum í þessari keppni. Við vildum bæta upp fyrir það sem gerðist í fyrra, það var mjög svekkjandi að tapa í úrslitaleik. Við viljum koma bikarnum heim til Eyja og herma svolítið eftir karlaliðinu.“

mbl.is