Milos virtist efst í huga beggja liða

Geoffrey Castillion snýr af sér Þórð Steinar Hreiðarsson og skorar ...
Geoffrey Castillion snýr af sér Þórð Steinar Hreiðarsson og skorar fyrra mark sitt gegn Blikum í gær. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Það er óhætt að segja að viðureign Breiðabliks og Víkings R. í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hafi verið fjörug á Kópavogsvelli í gær. Milos Milojevic var þar að mæta sínum gömlu lærisveinum úr Fossvoginum í fyrsta sinn og það virtist vera rauði þráðurinn í leiknum.

Víkingar unnu 2:1-sigur og greinilegt var að þeir ætluðu ekki að láta sinn gamla stjóra hafa betur, sama hvað það kostaði. Á meðan voru Blikar að berjast fyrir Milos og þar af leiðandi var leikurinn nokkuð harður. Dómarinn Guðmundur Ársæll Guðmundsson átti erfitt með að ráða við það en fór þó rétt með stærstu ákvörðun sína í leiknum.

Kristinn Jónsson í liði Breiðabliks var þá sendur af velli með sitt annað gula spjald á 38. mínútu. Kristinn fór í glæfralegt návígi með spjald á bakinu og átti sannarlega að vita betur. Manni færri voru Blikar þó afar skipulagðir til baka og eiga hrós skilið fyrir það, auk þess sem Aron Bjarnason og félagar í framlínu heimamanna voru gríðarlega hættulegir í skyndisóknunum.

Það var hins vegar hollenski framherjinn Geoffrey Castillion sem skipti sköpum. Milos sótti hann til landsins fyrir Víkinga í vor, veit vel af hæfileikum hans og Castillion undirstrikaði þá svo sannarlega gegn sínum gamla þjálfara. Það er ástæða fyrir því að Milos sótti kauða og hann sagði það sjálfur eftir leik að hann þyrfti mann eins og Castillion í lið sitt í Kópavoginum.

Sjá greinina í heild sinni og umfjöllun um alla leiki gærkvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.