Þurfum að vera árásargjarnir

Böðvar Böðvarsson með boltann í leiknum við Maribor og Heimir ...
Böðvar Böðvarsson með boltann í leiknum við Maribor og Heimir Guðjónsson fylgist með. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar FH í knattspyrnu mæta Braga í kvöld í fyrri umspilsleik liðanna um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í vetur. Leikurinn hefst kl. 17:45 og verður leikinn á heimavelli Hafnfirðinga í Kaplakrika.

Braga hefur verið í efri hluta portúgölsku deildarinnar síðustu ár og varð bikarmeistari í annað sinn í sögunni á síðasta ári. Því er ljóst að um gríðarlega sterkt lið er að ræða, sem hefur staðið í skugga stórliða deildarinnar, Porto, Benfica og Sporting. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var hæfilega bjartsýnn þegar Morgunblaðið ræddi við hann um væntingar fyrir leikinn.

„Þetta er gott fótboltalið og leikmennirnir eru góðir að halda boltanum innan liðsins. Mjög góðir tæknilega séð, en það eru 11 Brasilíumenn í liðinu. Liðið hefur verið í kringum fjórða sæti í portúgölsku deildinni og oft talað um liðið sem kemur á eftir Porto, Benfica og Sporting, þannig að við erum að tala um hörkulið.“

Ágætis möguleikar

Eins og áður sagði er portúgalska liðið afar sterkt, en FH er einnig með sterka liðsheild. Hverja telur Heimir möguleika FH í dag? „Möguleikarnir eru ágætir en eins og við höfum talað um þurfum við að spila tvo mjög góða og heilsteypta leiki. Ef við gerum það eigum við möguleika.“

Nánar er rætt við Heimi í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.