Áttum að fá einhverjar vítaspyrnur

Logi Ólafsson
Logi Ólafsson Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Meiningin var að reyna að vinna leikinn en við fáum á okkur mark í byrjun. Eftir það náum við virkilega góðum tökum á leiknum og þótt við séum einum færri sköpum við betri færi en mótherjinn. Ég er ánægður með allt nema markið sem við fengum á okkur og að við höfum fengið of mörg gul spjöld.“

Logi var ekki sérstaklega ánægður með störf Vilhjálms Alvars Þórarinssonar, dómara leiksins. 

„Menn þurfa að nýta færin sín betur. Það má líka horfa til þess að við áttum að fá einhverjar vítaspyrnur þegar brotið er á mönnum. Þegar Alex Freyr var í dauðafæri var greinilega brotið á honum. Það var hangið mjög mikið á okkar mönnum í fyrirgjöfum en það var ekkert dæmt. Ég tel að við áttum að fá 1-2 vítaspyrnur.“

Logi vildi einnig meina að Elfar Árni Aðalsteinsson hefði átt að fá rautt spjald fyrir að sparka í Halldór Smára Sigurðsson. 

„Ef hann fer í andlitið á honum með fótinn á það að gilda líka hinum megin. Ég veit ekki betur en það hafi verið sparkað í andlitið á Halldóri Smára og mér finnst það ekki skipta máli hvar, hvenær og hvernig það er gert þegar það er spark í andlit.“

„Þó að Túfa hafi sett fótinn fram sparkar Willams líka í hann. Þetta var samstuð eins og gerist í fótbolta og annar þeirra fauk út af en hinn fær að vera áfram.“

Hvað fannst Loga um að það hafi verið ellefu spjöld í leiknum? 

„Það var hart tekist á en þegar menn fá að hanga í mönnum án þess að það sé sett á það spjald, þá halda þeir áfram. Það er hægt að koma í veg fyrir það að leikurinn verður svona ef dómarinn passar að menn fái ekki heimild til þess að brjóta á mönnum hvað eftir annað án þess að það sé nokkuð gert í því.“

Víkingur hefði komist upp í þriðja sæti með sigri í kvöld. 

„Það er hörð barátta um Evrópusæti og við höfum tileinkað okkur þá vinnureglu að taka bara einn leik fyrir í einu og það er engin breyting á því og það er bónus ef leikirnir færa okkur nær Evrópusæti. Við erum með 22 stig og klárir í slaginn næst,“ sagði Logi að endingu. 

mbl.is