Menn verða ódauðlegir í FIFA

Aron Einar Gunnarsson fer fyrir landsliðinu í tölvuheiminum, líkt og …
Aron Einar Gunnarsson fer fyrir landsliðinu í tölvuheiminum, líkt og í raunheiminum. mbl.is/Golli

„Þetta eru söluhæstu leikirnir árlega og þeir seljast í milljónum eintaka,“ segir Bjarki Þór Jónsson hjá Nördi Norðursins um FIFA-tölvuleikina. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu verður í næstu fjór­um út­gáf­um af leiknum og segir Bjarki það frábærar fréttir fyrir landsliðið.

Eins og greint var frá í gær verður íslenska karlalandsliðið í FIFA 18, næstu út­gáfu þessa vin­sæl­asta íþrótta­tölvu­leiks heims, sem gef­inn verður út í lok mánaðar­ins. Strák­arn­ir okk­ar verða svo einnig í FIFA 19, FIFA 20 og FIFA 21.

Bjarki bendir á að vinsældir leikjanna megi rekja til þess að þeir nái til tveggja hópa; tölvunörda og íþróttanörda. „Margir sem spila ekki alla tölvuleiki spila FIFA. Einnig spila þeir leikinn sem fylgjast líltið sem ekkert með fótbolta. Þetta nær því inn í báða hópa.“

Bjarki segir að markaðsfræðilega sé þetta auðvitað mjög gott fyrir íslenska landsliðið en bendir á að liðið hafi sjálft kynnt sig rækilega fyrir heimsbyggðinni á Evrópumótinu í fyrra. „Þegar komið er í FIFA er þetta komið í ódauðleikann og þeir lifa áfram í gegnum tölvuleikinn. Það er ákveðin viðurkenning í leikjaheiminum sem felst í því að komast í þennan leik,“ segir Bjarki.

Emil Hallfreðsson og Gylfi Sigurðsson leika listir sínar í FIFA. …
Emil Hallfreðsson og Gylfi Sigurðsson leika listir sínar í FIFA. Andriy Shevchenko gerði það fyrir nokkrum árum. mbl.is/Golli

Býst við að leikurinn slái sölumet

Algengt sé að spilarar leiki sér með liðum sem þeir þekki lítið til og fái talsverðan áhuga á þeim liðum í gegnum leikinn. „Menn fá að kynnast nöfnum manna, fá að vita hvernig þeir líta út og fleira slíkt. Þetta verður stundum til þess að menn eignast uppáhaldslið,“ segir Bjarki og bætir við að ekki skemmi fyrir að flestir hafi gaman af „litlum“ liðum sem nái góðum árangri.

„Þetta er eins og sagan um Cool Runnings,“ segir Bjarki en árið 1988 tefldi Jamaíka í fyrsta sinn fram bobsleðaliði á vetr­arólymp­íu­leik­un­um í Cal­gary. Vakti það mikla at­hygli enda er landið þekkt fyr­ir allt annað en vetr­aríþrótt­ir og var bíó­mynd­in Cool Runn­ings meðal ann­ars gerð um af­rekið. „Sagan um litlu þjóðina sem nær einhverju stóru er alltaf sjarmerandi.“

Bjarki býst við því að tilkoma strákanna okkar í leikinn eigi án vafa eftir að auka vinsældir þessa gríðarlega vinsæla leiks. „Ég ætla að skjóta á að það verði slegið sölumet á FIFA á Íslandi. Ég myndi þora að veðja upp á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert