Jóhann Birnir leggur skóna á hilluna

Jóhann Birnir Guðmundsson er hættur.
Jóhann Birnir Guðmundsson er hættur. Ljósmynd/Víkurfréttir

Knattspyrnumaðurinn Jóhann Birnir Guðmundsson hefur lagt skóna á hilluna eftir langan og glæsilegan feril, þetta staðfesti hann í útvarpsþættinum Akraborgin í dag. Hinn fertugi Jóhann Birnir ólst upp hjá Keflavík en hann lék sem atvinnumaður erlendis í áratug. 

Jóhann, sem verður fertugur í desember, lék lengst af sem kantmaður en einnig sem miðjumaður og skoraði eitt mark í níu leikjum fyrir Keflavík í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í ár. Samanlagt lék hann 203 leiki fyrir Keflavík og skoraði í þeim 46 mörk. Þar af eru 168 leikir og 41 mark í efstu deild.

Jóhann hóf  ferilinn með Víði í Garði en fór þaðan til Keflavíkur. Hann lék með Watford á Englandi frá 1998 til 2000 og lék hann m.a 9 leiki með liðinu í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1999-2000. Hann lék einnig með enska liðinu Cambridge, Lyn í Noregi og Örgryte og GAIS í Svíþjóð áður en hann sneri aftur til Keflavíkur. Jóhann á átta A-landsleiki að baki og hann lék 23 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is