Þær eru stoltir klettabúar

Freyr ræðir við liðið á æfingu í dag.
Freyr ræðir við liðið á æfingu í dag. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Þær fá ekkert að vita strax, þær fá að vita eitthvað á föstudaginn,“ sagði Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, við mbl.is í dag. Leikmenn liðsins vita ekki mikið um fyrsta andstæðing sinn í undankeppni HM sem fram fer í Frakklandi árið 2019. 

„Ég veit alveg helling um þær. Þær eru búnar að vera að gera vel í síðustu leikjum og unnið í síðustu fimm leikjum sínum, en gegn slakari liðum. Frammistaða þeirra hefur verið góð en það er erfitt að meta gegn sterkari þjóðum, þar sem þær hafa ekki verið spila mikið við þær. Þær hafa gríðarlega mikið stolt og spila fast, þær eru stoltir klettabúar."

„Við eigum reynslumeiri og betri leikmenn. Pappírarnir hafa oft svikið mann en við förum í þennan leik sem stóra liðið og við þurfum að taka því og ná fram góðri frammistöðu.“

Freyr er ánægður að landsliðið sé komið saman á ný eftir EM. 

„Ég hlakkaði mikið til. Það var geggjað að vera með æfingu í dag og í morgun. Þetta er mjög gaman, loksins, loksins fórum við að æfa aftur.“

Freyr segir töluvert meiri ró yfir öllu sem tengist liðinu núna en fyrir EM. Hann bætir svo við að allir leikmenn hópsins séu heilir heilsu.

Áhyggjur af að það sé of rólegt

„Það er töluvert mikið rólegra, áhyggurnar eru að það sé of rólegt því það var mikið í gangi síðasta árið. Við verðum að njóta þess og spila leikinn. Það eru allir heilir enn þá en við tökum vel á því á æfingu og maður veit ekki hvað gerist.“

Freyr metur möguleikana á að vera á meðal þátttakenda á HM vera ágæta. 

„Við fengum Þýskaland sem á að vinna riðilinn örugglega, það var ekki happadráttur. Það eru tvær leiðir; vinna riðilinn eða fara í gegnum umspil og við sjáum frekari möguleika í gegnum umpilið en þá þurfum við að vera ein af fjórum bestu í öðru sæti og við ætlum okkur það. Við verðum að ná í sem sem flest stig og við megum ekki misstíga okkur. Leikirnir við Þýskaland eru bónusstríð fyrir okkur. Ef við náum að klukka þær og halda í við þær og ef við gerum það getum við sett upp spennandi leik hérna á næsta ári,“ sagði Freyr. 

mbl.is