Skagamenn halda enn í vonina

Ingimundur Níels Óskarsson og Gylfi Veigar Gylfason í leik Fjölnis ...
Ingimundur Níels Óskarsson og Gylfi Veigar Gylfason í leik Fjölnis og ÍA í dag. mbl.is/Eggert

Skagamenn eiga enn möguleika á því að halda sæti sínu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu eftir að liðið gerði 2:2- jafntefli við Fjölni í Grafarvoginum í 19. umferð deildarinnar í kvöld. ÍA er nú sjö stigum frá öruggu sæti þegar þrjár umferðir eru eftir, en Fjölnir er einnig í mikilli fallbaráttu.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill. Fjölnismenn voru meira með boltann án þess þó að ná að skapar sér færi að ráði, en á meðan reyndu Skagamenn mikið langar sendingar fram völlinn sem ekkert kom út úr. Staðan markalaus í hálfleik.

Það lifnaði hins vegar yfir hlutunum strax í upphafi síðari hálfleik. Það kom þá hættulítil fyrirgjöf inn á vítateig ÍA og misskilningur á milli Árna Snæs Ólafssonar í marki Skagamanna og Ólafs Vals Valdimarssonar varð til þess að sá síðarnefndi skallaði boltann yfir markvörð sinn og í autt markið. Afar klaufalegt sjálfmark og staðan orðin 1:0 fyrir Fjölni.

Aðeins rúmum fimm mínútum síðar jöfnuðu hins vegar Skagamenn með nokkuð umdeildu marki. Eftir fyrirgjöf inn í teiginn virðist Þórður Ingason í marki Fjölnis hafa handsamað boltann, Stefán Teitur Þórðarson tekur hann hins vegar af honum og skorar. Staðan orðin 1:1.

Skagamenn efldust við markið og héldu áfram að sækja. Það bar ávöxt á 60. mínútu þegar Ólafur Valur sendi fyrir markið frá vinstri og Steinar Þorsteinsson kom askvaðandi á nærstöngina og skilaði boltanum í markið. Staðan orðin 2:1 fyrir ÍA.

Fjölnismenn reyndu að komast inn í leikinn á ný og meðal annars átti Birnir Snær Ingason fast skot af löngu færi sem hafnaði í þverslá Skagamanna. Á 75. mínútu jafnaði Fjölnir, en var var að verki Þórir Guðjónsson með skalla af stuttu færi eftir að Skagamenn náðu ekki að hreinsa frá. Staðan 2:2.

Bæði lið fengu sín færi eftir þetta en fleiri urðu mörkin ekki og niðurstaðan 2:2 jafntefli. ÍA á því enn möguleika á að halda sæti sínu í deildinni, er þó enn í neðsta sæti með 14 stig. Fjölnir er líka í bullandi fallhættu í 10. sætinu með 21 stig en á frestaðan leik við FH til góða.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Fjölnir 2:2 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið Stig sem gefur liðunum lítið og bæði eru í bullandi fallhættu.
mbl.is