Misskilningur Þorvalds endaði með fimmu frá Jóni Jónssyni

Tækling Bergsveins sem leiddi til misskilningsins. Jón Ragnar Jónsson fylgist ...
Tækling Bergsveins sem leiddi til misskilningsins. Jón Ragnar Jónsson fylgist vel með. mbl.is/Alfons Finnsson.

Þorvaldur Árnason, knattspyrnudómari, gerði sig sekan um slæm mistök er hann ætlaði að reka Bergsvein Ólafsson, varnarmann FH út af í leik liðsins gegn Víkingi Ólafsvík í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þar sem lokatölur urðu 1:1.

Þorvaldur gaf Bergsveini gult spjald og síðan rautt þar sem hann taldi sig hafa veitt Bergsveini áminningu fyrr í leiknum. Það hafði hann hins vegar ekki gert og dró hann spjaldið réttilega til baka. 

Bergsveinn fékk gult spjald. „Þorvaldur lyfti svo rauða spjaldinu í kjölfarið, hélt greinilega að hann hefði áminnt Bergsvein fyrr í leiknum, en leiðrétti svo þennan vandræðalega misskilning. Ólafsvíkingar í stúkunni voru eðlilega hoppandi kátir með þetta allt saman.” sagði Sindri Sverrisson í lýsingu mbl.is í dag.

Jón Ragnar Jónsson, tónlistarmaðurinn geðþekki, var í byrjunarliði FH í dag og gaf Þorvaldi fimmu fyrir að hafa breytt rétt.

mbl.is