Búið að vera geggjað sumar

Hulda Björg Hannesdóttir skælbrosandi eftir að Stephany Mayor gulltryggði Þór/KA …
Hulda Björg Hannesdóttir skælbrosandi eftir að Stephany Mayor gulltryggði Þór/KA Íslandsmeistaratitilinn með seinna marki leiksins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hulda Björg Hannesdóttir spilaði alla leikina í byrjunarliði Íslandsmeistaraliðs Þórs/KA í knattspyrnu í sumar. Hún er rétt orðin 17 ára og hafði varla komið við sögu í meistaraflokki þegar undirbúningstímabilið hófst í nóvember.

Hún var spurð örstutt út í sína frammistöðu og lokaleikina eftir sigurinn á FH í dag, þegar liðið tryggði sér titilinn.

„Ég var alltaf ákveðin í að komast í þetta lið og það tókst. Það hefur gengið vel og þetta er búið að vera geggjað sumar. Það eru allir að vinna að sama markmiði og hópurinn er þéttur. Frá fyrsta degi æfinga var stefnt á titilinn. Donni kom bara inn og sagði „Við ætlum að vinna Íslandsmeistaratitilinn.“ Það má segja að honum hafi tekist að selja okkur þá hugmynd strax.“ 

Þú ert ung og reynslulítil. Voru taugarnar ekki þandar í þessum síðustu leikjum? 

„Ég get ekki sagt það. Maður verður að reyna að stilla sig af og halda fókus. Vissulega var þetta spennandi en ekki endilega stressandi. Maður vaknaði kannski með smá fiðring í maganum í morgun en hann fór fljótlega“ sagði hin magnaða Hulda Björg að lokum.

Þór/KA er Íslandsmeistari 2017.
Þór/KA er Íslandsmeistari 2017. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert