Pollróleg allan leikinn

Sigrinum fagnað! Lára Einarsdóttir, lengst til vinstri, Bianca Sierra, Stephany …
Sigrinum fagnað! Lára Einarsdóttir, lengst til vinstri, Bianca Sierra, Stephany Mayor, Natalia Gomez og Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lára Einarsdóttir er ekki mest áberandi leikmaður Íslandsmeistaraliðs Þórs/KA. Hún er 22 ára og er leikjahæsti leikmaður Íslandsmeistaranna með 140 leiki. Hinn hógværi varnarmaður var fenginn í viðtal og fékk fyrst að vita að hún væri eini leikmaðurinn hjá Þór/KA sem hefur spilað alla leiki liðsins bæði Íslandsmeistaraárin 2012 og 2017. 

„Þetta er skemmtileg staðreynd sem ég hafði ekki hugmynd um“ sagði Lára. Svo var hún spurð hvort einhver munur væri á titlaárunum tveimur. 

 „Auðvitað er munur á þessu. Mér fannst einhvern veginn að það væri miklu meira undir núna. Það var komin svo mikil spenna í þetta og menn farnir að sjá okkur klúðra titlinum á endasprettinum. Við erum búnar að vera í toppsætinu allt mótið og það er öðruvísi. Við tryggðum okkur titilinn fyrir lokaumferðina síðast en núna var þetta meira spennandi og það gerir þetta bara ennþá sætara.“ 

Ykkur gekk erfiðlega í dag að ná upp almennilegu spili. Hvernig var líðanin þegar leið á leikinn og ekkert gekk að skora? 

„Við vissum ekkert hvernig staðan í hinum leiknum var og vorum klárar á að ná einu marki í þessum leik. FH var að spila virkilega sterkan varnarleik og gaf okkur fá færi. Við urðum bara að halda áfram og hafa trú að að markið kæmi á endanum. Ég var alveg pollróleg allan leikinn og vissi að við myndum klára þetta, sama hvenær í leiknum það gerðist. Það var ekkert sem benti til þess að FH myndi skora svo þetta var bara spurning um að koma inn einu marki. Þetta FH lið er virkilega gott og erfitt að spila á móti þeim. Þær gáfu okkur mjög erfiðan leik í dag“ sagði hinn tvöfaldi Íslandsmeistari að lokum. 

Lára Einarsdóttir, lengst til hægri, fagnar marki í sumar.
Lára Einarsdóttir, lengst til hægri, fagnar marki í sumar. mbl.is/Gollil
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert